Erlent

Finnar boðnir vel­komnir í At­lants­hafs­banda­lagið

Kjartan Kjartansson skrifar
Finnland er 31. aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.
Finnland er 31. aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. AP/Geert Vanden Wijngaert

Hvítur og blár fáni Finnlands var dreginn að húni við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel til marks um inngöngu landsins í dag. Landamæri Rússlands og NATO tvöfaldast að lengd með inngöngu Finna.

Tímamótin í dag eru söguleg þar sem Finnar hafa haldið á lofti formlegu hlutleysi eftir að þeir sigruðu Sovétmenn í síðari heimsstyrjöldinni. Innrás Rússa í Úkraínu varð til þess að finnsk stjórnvöld ákváðu að sækja um aðild að varnarbandalagi vestrænna ríkja.

„Tímabil hlutleysis í sögu okkar er á enda runnið, nýtt tímabil tekur við,“ sagði Sauli Niinistö, forseti Finnlands, þegar fáni landsins var hífður á loft í Brussel.

Innganga Finna í NATO er sögð reiðarslag fyrir Vladímír Pútín, forseta Rússlands en hann hefur lengi barmað sér undan útþenslu bandalagsins til austurs. Hún er hluti átyllu hans fyrir innrásinni í Úkraínu.

Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, óskaði Finnum til hamingju á samfélagsmiðlum í dag. Lýsti hann NATO sem einu raunverulegu tryggingunni fyrir öryggi í heimshlutanum. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði inngöngu Finna sýna að Evrópa og NATO stæði þéttar saman en nokkurn sinni áður.

Stjórnvöld í Kreml hafa hótað einhvers konar hefndaraðgerðum vegna meintrar öryggisógnar sem þau telja felast í aðild Finna að NATO. Þau gætu fjölgað í herliði sínu við finnsku landamærin ef NATO sendir mannskap eða búnað þangað.

Svíar sóttu um umsókn að NATO á sama tíma og Finnar. Andstaða Tyrkja varð til þess að umsókn Svía var sett á ís í bili.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×