Erlent

Hand­tóku meinta íslamista sem vildu hefna fyrir Kóranbrennu

Kjartan Kjartansson skrifar
Einhverjir fimmmenninganna voru handteknir í Linköping í Suður-Svíþjóð.
Einhverjir fimmmenninganna voru handteknir í Linköping í Suður-Svíþjóð. Vísir/Getty

Sænska leyniþjónustan handtók fimm menn sem hún grunar um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk. Mennirnir eru sagðir hafa tengsl við Ríki íslams. Málið er eitt nokkurra sem sænsk yfirvöld segjast rannsaka í kjölfar umdeildra Kóranbrenna dansks hægriöfgamanns.

Mennirnir voru handteknir í samhæfðum aðgerðum lögreglu í Eskiltuna, Linköping og Strängnäs. Húsleit var gerð á nokkrum stöðum, að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT. Mennirnir eru sagðir tengjast hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams en Susanna Trehörning, aðstoðardeildarstjóri hryðjuverkadeildar sænsku öryggislögreglunnar Säpo, segist ekki geta greint frekar frá þeim tengslum.

Sænsk yfirvöld hafa fengið upplýsingar um hryðjuverkaógn í Svíþjóð eða gegn sænskum hagsmunum eftir að danski hægriöfgamaðurinn Rasmus Paludan brenndi Kóraninn fyrir utan tyrkneska sendiráðið í Svíþjóð í janúar. Þær brennur urðu einnig til þess að Tyrkir settu Svíum stólinn fyrir dyrnar um að ganga í Atlantshafsbandalagið.

Karin Lutz, blaðafulltrúi Säpo, segir að Kóranbrennan hafi verið tilefnið að fyrirætlunum mannanna sem voru handteknir í morgun, að því er kemur fram í frétt Aftonbladet.

Trehöring segir að mennirnir séu grunaðir um að undribúa hryðjuverk í Svíþjóð en að þau áform hafi verið á frumstigi. Árás hafi ekki verið aðsteðjandi. Saksóknari segir að mennirnir séu búsettir í borgunum þremur þar sem þeir voru handteknir. Taka þarf ákvörðun fyrir föstudag um hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum eða þeim sleppt.


Tengdar fréttir

Bretar banna dönskum Kóran­brennu­manni að koma

Rasmus Paludan, stofnandi danska hægriöfgaflokksins Strangrar stefnu, fær ekki að koma til Bretlands. Hann ætlaði sér að brenna Kóraninn í bænum Wakefield í vikunni við upphaf föstumánaðar múslima.

Biðja sænska ríkis­­borgara að gæta sín

Sænsk yfirvöld biðja ríkisborgara sína að forðast mannmergð í Tyrklandi. Kveikt var í Kóraninum á mótmælafundi í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í vikunni og sögðu tyrknesk stjórnvöld að Svíar ættu ekki að gera ráð fyrir stuðningi þeirra vegna umsóknar að NATO.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×