Erlent

Harry og Elton við­staddir fyrir­töku hóp­máls­sóknar gegn Daily Mail

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það kom mörgum á óvart þegar Harry birtist í Lundúnum í gær en hann hefur ekki komið til Bretlands frá því að Elísabet II var borin til grafar.
Það kom mörgum á óvart þegar Harry birtist í Lundúnum í gær en hann hefur ekki komið til Bretlands frá því að Elísabet II var borin til grafar. epa/Neil Hall

Harry Bretaprins og Elton John voru meðal viðstaddra þegar dómstóll í Lundúnum tók fyrir hópmálsókn gegn Associated Newspapers, sem á meðal annars og gefur út Daily Mail.

Harry og John eru meðal nokkurra þekktra einstaklinga sem eiga aðild að málsókninni en einnig má efna leikkonurnar Elizabeth Hurley og Sadie Frost.

Dómstóllinn mun hlýða á málflutning í fjóra daga og ákveða að því loknu hvort málið verður tekið fyrir eða því vísað frá. Lögmenn Associated Press hafa neitað öllum ásökunum á hendur fyrirtækinu og óskað eftir frávísun.

David Sherborne, lögmaður sóknaraðilanna, sagði þá alla hafa verið fórnarlömb ólögmætra aðgerða starfsmanna Daily Mail og Mail on Sunday eða útsendara þeirra. Þeir hefðu meðal annars hlustað á skilaboð á símsvörum, hlerað landlínur og beitt ólögmætum aðgerðum til að komast yfir upplýsingar á borð við sjúkrahúsgögn og símreikninga.

Brotin hefðu átt sér stað á árunum 1993 til 2011 og mögulega til 2018.

Í málsgögnum sem lögð voru fram fyrir hönd Harry er meðal annars fjallað um það tjón sem prinsinn varð fyrir þegar hann fylltist ofsóknarbrjálæði í kjölfar umfjöllunar miðlanna um atriði sem enginn nema nánustu aðstandendur gátu vitað um.

Umfjöllunin hefði orðið til þess að skapa vantraust í garð þeirra sem hann treysti áður og valdið vinslitum.

Þá var greint frá því fyrir dómnum að landlína John og eiginmanns hans hefði verið hleruð og að það hefði haft djúpstæð áhrif á þá að hugsa til þess að persónuleg samtöl þeirra á milli hefðu verið tekin upp og spiluð af ókunnugum, án tillit til þess hvort blöðin gerðu sér mat úr símtölunum.

Hjónin hefðu enn fremur ekki séð fæðingarvottorð fyrsta barnsins síns áður en miðlarnir höfðu komist yfir eintak.

Fyrir hönd Hurley sagði Seaborne að brotist hefði verið inn í síma hennar og hlustunarbúnaður settur á glugga á heimili hennar. Þá hefði bifreið Hugh Grant, fyrrverandi kærasta Hurley, verið hleraður.

BBC fjallar ítarlega um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×