Veður

Hvasst syðst og hvessir enn í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Þegar líður á morgundaginn hlýnar í veðri þegar hlýr loftmassi kemur úr suðri og breytist þá úrkoman yfir í slyddu eða rigningu á sunnanverðu landinu.
Þegar líður á morgundaginn hlýnar í veðri þegar hlýr loftmassi kemur úr suðri og breytist þá úrkoman yfir í slyddu eða rigningu á sunnanverðu landinu. Vísir/Vilhelm

Víðáttumikil lægð liggur nú langt suður í hafi og færir okkur austlæga átt í dag með stöku éljum fyrir austan, en að mestu skýjað og þurrt vestanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði allhvass vindur syðst, en hægari annars staðar. Í kvöld nálgist svo skil sem fylgi lægðinni og bætir þá í vindinn syðst og byrjar að snjóa þar.

„Í nótt og á morgun stefnir í austan hvassviðri eða storm með suðurströndinni þar sem hvassast verður undir Eyjafjöllum og í kringum Öræfi. Með þessu fylgir líklega snjókoma og skafrenningur svo búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Þegar líður á morgundaginn hlýnar í veðri þegar hlýr loftmassi kemur úr suðri og breytist þá úrkoman yfir í slyddu eða rigningu á sunnanverðu landinu.

Annað kvöld færist síðan úrkomubakki yfir suðaustanvert landið og Austfirði og má búast við talsverðri slyddu eða snjókomu þar fram á fimmtudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan og norðaustan 8-15 m/s, en 15-23 syðst. Snjókoma með köflum, en hlýnar á Suður- og Vesturlandi þegar líður á daginn með rigningu eða slyddu. Hiti 0 til 6 stig seinnipartinn. Líkur á talsverðri slyddu eða snjókomu austast á landinu um kvöldið.

Á fimmtudag: Austlæg átt 13-23 m/s, en hægari vestanlands. Rigning eða slydda með köflum á Suður- og Vesturlandi, en talsverð slydda eða snjókoma austantil á landinu. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Suðaustan og austan 5-15 m/s þegar líður á daginn. Víða rigning eða slydda, en snjókoma með köflum um landið norðanvert. Hiti 0 til 6 stig.

Á laugardag: Austlæg átt 5-13 m/s og skúrir eða él, en samfelld úrkoma um landið suðaustanvert. Hiti um og yfir frostmarki.

Á sunnudag: Suðlæg átt og dálitlar skúrir eða él. Heldur hlýnandi.

Á mánudag: Hæg suðlæg átt og úrkomulítið. Hiti 1 til 7 stig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.