Þúsundir stuðningsmanna Trump fögnuðu honum á flugvelli við borgina Waco í Texas í gær. Borgin varð alræmd fyrir blóðug átök sértrúarsafnaðar við alríkisyfirvöld fyrir að verða þrjátíu árum. Hátt í áttatíu manns létu lífið í þeim átökum sem bandaríski hægriöfgamenn líta á sem dæmi um ofríki alríkisstjórnarinnar.
Samkoman hófst á því að kór fólks sem var handtekið og fangelsað fyrir sinn þátt í árás stuðningsmanna Trump á bandaríska þinghúsið 6. janúar árið 2021 söng lag sem hét „Réttlæti fyrir alla“. Trump stóð með hönd á hjarta undir laginu en á skjá fyrir aftan hann voru sýndar myndir af árásinni.
„Þið fáið uppreist æru og verðið stolt. Hrottarnir og glæpamennirnir sem spilla réttarkerfinu okkar verða sigraðir, rúnir trausti og algerlega smánaðir,“ sagði Trump.
Sakaði Biden-stjórnina um stalínisma
Fundurinn fór fram í skugga yfirvofandi ákæru á hendur Trump í New York fyrir þátt hans í að greiða klámleikkonu fyrir að þegja um meint kynferðislegt samband þeirra fyrir forsetakosningarnar árið 2016.
Sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins rannsakar einnig leyniskjöl sem Trump tók með sér þegar hann lét af embætti og þátt hans í tilraunum til þess að snúa úrslitum forsetakosninganna 2020 við. Umdæmissaksóknari í Georgíu rannsakar á sama tíma tilraunir Trump og bandamanna til þess að snúa úrslitunum þar við.
Trump lýsti yfir sakleysi sínu, bæði af því að hafa greitt þagnargreiðslu og að hafa haldið fram hjá eiginkonu sinni. Sakaði hann ríkisstjórn Joes Biden forseta um að nota dómskerfið til þess að koma höggi á sig og líkti því við stalínisma án nokkurra raka.
Talaði hann um demókrata sem óvini og andstæðinga sína og stuðningsmanna sinna.
„Þeir hafa aðeins gert okkur sterkari og 2024 verður lokaorrustan, það verður sú stóra. Ef þið setjið mig aftur í Hvíta húsið verður valdatíð þeirra lokið og Bandaríkin verða frjáls þjóð á ný,“ sagði Trump.