Erlent

Bretar banna dönskum Kóran­brennu­manni að koma

Kjartan Kjartansson skrifar
Litli drengurinn með eldspýturnar. Rasmus Paludan hefur vakið athygli á sér og hægriöfgaskoðunum sínum með því að brenna Kóraninn opinberlega.
Litli drengurinn með eldspýturnar. Rasmus Paludan hefur vakið athygli á sér og hægriöfgaskoðunum sínum með því að brenna Kóraninn opinberlega. Vísir/EPA

Rasmus Paludan, stofnandi danska hægriöfgaflokksins Strangrar stefnu, fær ekki að koma til Bretlands. Hann ætlaði sér að brenna Kóraninn í bænum Wakefield í vikunni við upphaf föstumánaðar múslima.

Tom Tugendhat, öryggismálaráðherra Bretlands, segir að Paludan hafi verið settur á eftirlitslista innflytjendayfirvalda og að honum verið meinað um að koma inn í landið.

„Ferðalag hans til Bretlands færi ekki saman við almannahag og honum verður ekki hleypt inn,“ sagði ráðherrann þegar hann var spurður út í yfirvofandi heimsókn Paludan í breska þinginu í dag.

Paludan er alræmdur fyrir að brenna Kóraninn og ögranir í garð múslima. Kóranbrennur hans í Svíþjóð eru meðal annars ástæða þess að Tyrkir hafa ekki viljað samþykkja aðild Svía að Atlantshafsbandalaginu.

Danski öfgamaðurinn ætlaði sér að ferðast til Wakefield í Vestur-Jórvíkurskíri til þess að mótmæla því að skólayfirvöld þar hafi vikið fjórum nemendum úr skóla fyrir að vinna skemmdarverk á Kóraninum. Hét Paludan því að berjast gegn „ólýðræðislegum öflum“. Ætlun hans var að kveikja í Kóraninum í borginni við upphaf ramadan, föstumánaðar múslima, á morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir

Biðja sænska ríkis­­borgara að gæta sín

Sænsk yfirvöld biðja ríkisborgara sína að forðast mannmergð í Tyrklandi. Kveikt var í Kóraninum á mótmælafundi í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í vikunni og sögðu tyrknesk stjórnvöld að Svíar ættu ekki að gera ráð fyrir stuðningi þeirra vegna umsóknar að NATO.

Öfgamanni tókst að skapa það upplausnarástand sem hann vildi

Páskahelgin í Svíþjóð hefur einkennst af ofbeldisfullum átökum á milli lögreglu og mótmælenda víða um landið. Einn er grunaður um manndrápstilraun á hendur lögreglumanni og fleiri en fjörutíu hafa verið handteknir. Rasmus Paludan, danskur róttækur hægrimaður, á töluverðan hlut að máli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×