Erlent

Erdogan segist styðja aðild Finna að NATO

Samúel Karl Ólason skrifar
Sauli Niinisto og  Recep Tayyip Erdogan, forsetar Finnlands og Tyrklands,  í Ankara í dag.
Sauli Niinisto og Recep Tayyip Erdogan, forsetar Finnlands og Tyrklands, í Ankara í dag. AP/Burhan Ozbilici

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði í dag að tyrkneska þingið myndi greiða atkvæði um að samþykkja umsókn Finnlands um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ekki stendur til að samþykkja aðild Svía að svo stöddu og eru auknar líkur á því að Finnar gangi einir í NATO í bili.

Sauli Niinisto, forseti Finnlands, er staddur í Ankara í Tyrklandi þar sem hann hitti Erdogan í dag.

Rúmir tíu mánuðir eru síðan Finnar og Svíar sóttu um aðild að NATO og gerðu þeir það vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Öll aðildarríki NATO þurfa að samþykkja inngöngu nýrra meðlima en einungis Tyrkir og Ungverjar eiga eftir að samþykkja umsóknir Svía og Finna.

Tyrkir hafa ekki viljað samþykkja umsókn Svía. Tyrkir hafa krafist þess að fá sænska Kúrda framselda til Tyrklands og aðila sem þeir segja tengjast valdaránstilraun árið 2016. Bæði Finnar og Svíar hafa að einhverju leyti komið til móts við Tyrki og meðal annars aflétt vopnasölubanni sem sett var á Tyrki eftir innrás þeirra í Sýrland árið 2019.

Sjá einnig: Tyrkir sagðir ætla að samþykkja umsókn Finna

Búist er við því að þingið muni greiða atkvæði um umsókn Finna fyrir 14. maí, þegar tyrkneska þinginu verður slitið fyrir kosningar.

Niinisto sagðist í dag vonast til þess að Finnar gætu fengið aðild að NATO fyrir leiðtogafund sem halda á í Litháen í júlí.


Tengdar fréttir

Finnar byrja að girða sig af frá Rúss­landi

Framkvæmdir við girðingu á hluta landamæra Finnlands og Rússlands eru hafnar. Finnska landamærastofnunin segir að girðingin verði þriggja metra há með gaddavír ofan á henni. Tilgangurinn sé að tryggja landamærin frekar.

Ár eyðileggingar og hörmunga

Ár er liðið frá því Rússar hófu innrásina í Úkraínu. Á þessum degi í fyrra lýsti Vladimír Pútín, forseti Rússlands, því yfir að Rússar væru að hefja „sértæka hernaðaraðgerð í Úkraínu.

Vilja aftur funda með Svíum um NATO-aðild

Tyrknesk stjórnvöld hafa tilkynnt að til standi að halda fleiri fundi með fulltrúum sænskra og finnskra stjórnvalda um NATO-aðild þeirra. Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, greindi frá þessu í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×