Erlent

Rússar þvinguðu bandarískan dróna til nauðlendingar

Kjartan Kjartansson skrifar
MQ-9 Reaper-dróni líkur þeim sem Rússar þvinguðu niður yfir Svartahafi í dag.
MQ-9 Reaper-dróni líkur þeim sem Rússar þvinguðu niður yfir Svartahafi í dag. Vísir/Getty

Bandaríski flugherinn sakar Rússa um glannaskap þegar rússnesk herþota þvingaði bandarískan eftirlitsdróna til þess að nauðlenda í Svartahafi í dag. Atvikið er það fyrsta á milli ríkjanna tveggja frá því að stríðið í Úkraínu hófst.

CNN-fréttastöðin hefur eftir bandarískum embættismanni að MQ-9 Reaper-dróni hafi verið við hefðbundið eftirlit í alþjóðlegu loftrými ásamt tveimur rússneskum SU-27 Flanker-orrustuþotum. Önnur rússneska þotan hafi viljandi flogið fram fyrir drónann og losað eldsneyti. Hin þotan hafi skemmd hreyfil drónans sem þvingaði hann til að lenda á alþjóðlegu hafsvæði í Svartahafi.

Í yfirlýsingu frá bandaríska flughernum eru flugmenn rússnesku þotnanna sakaðir um glannaskap og ósæmandi hegðun sem hafi verið skaðleg umhverfinu.

Rússnesk og bandarísk loftför hafa deilt alþjóðlegu loftrými yfir Svartahafi frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir rúmu ári. Ekki hefur áður komið til slíkra árekstra.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, segir að Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi verið upplýstur um uppákomuna. AP-fréttastofan segir að stjórnvöld í Kreml hafi ekki brugðist við fréttunum enn sem komið er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×