Íslenski boltinn

Mor­ten Beck telur sig eiga inni fjór­tán milljónir hjá FH

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Morten Beck [til vinstri] í leik með FH.
Morten Beck [til vinstri] í leik með FH. Vísir/Bára Dröfn

Danski framherjinn Morten Beck hefur ákveðið að fara í mál við knattspyrnudeild FH þar sem hann telur sig eiga inni 14 milljónir íslenskra króna hjá félaginu.

Frá þessu var greint í hlaðvarpsþættinum Dr. Football fyrr í dag. Þáttastjórnandi, Hjörvar Hafliðason, sagði að lögfræðingur leikmannsins færi fram á hámarkssekt og að FH yrði dæmt í tveggja ára félagaskiptabann.

Hjörvar segir málið snúast um samning Beck við FH. Framherjinn hafi talið sig vera launþega þegar hann hafi í raun verið á verktakagreiðslum.

„Hann er farinn með FH í dómsalinn. Hann (Beck) vill meina að FH skuldi sér fyrir meira en tvö tímabil, alls 14 milljónir,“ sagði Hjörvar í þætti dagsins. Samkvæmt honum viðurkennir FH að félagið skuldi Morten Beck pening en ekki jafnháa upphæð og kemur fram hér að ofan.

„Af gögnum málsins að dæma hefur hann rétt fyrir sér og líklegt að FH-ingar þurfi að borga. Þetta er skítamál fyrir Hafnfirðinga,“ sagði Hjörvar einnig.

Í frétt Fótbolti.net um málið segir: „Valdimar Svavarsson formaður FH staðfestir að félagið hafi fengið kröfur en það hafni þeim alfarið. Málið fari í ákveðinn farveg og félagið ætli ekki að tjá sig um það efnislega að svo stöddu.“

Morten Beck spilaði með FH frá 2019 til 2021 en á meðan hann var samningsbundinn liðinu var hann lánaður til ÍA. Þá lék hann með KR tímablið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×