Enski boltinn

Eigandi Liverpool segir að félagið muni eyða „skynsamlega“ í leikmenn í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 John W. Henry og eiginkona hans Linda Pizzuti Henry með Jürgen Klopp.
 John W. Henry og eiginkona hans Linda Pizzuti Henry með Jürgen Klopp. Getty/Michael Regan

Þeir stuðningsmenn Liverpool sem vonuðust eftir stórum leikmannakaupum hjá félaginu í sumar verða að stilla væntingum sínum í hóf.

John Henry, eigandi félagsins, segir að stefnan sé að fjárfesta í leikmönnum eftir tímabilið en það sé ekki von á miklum breytingum frá hegðun félagsins á markaðnum síðan að Fenway Sports Group eignaðist félagið.

Liverpool átti möguleika á því að vinna fjóra titla á síðasta tímabili og vann þá tvo bikara. Það hefur lítið gengið á þessu tímabili en eftir 7-0 sigur á Manchester United í síðasta leik á félagið enn möguleika á að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Liverpool er samt 21 stigi á eftir toppliði Arsenal og stuðningsmenn félagsins eru flestir mjög pirraðir yfir því hversu lítinn stuðning knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp hefur fengið á félagsskiptamarkaðnum.

Henry ræddi stöðuna við Liverpool Echo og lagði áherslu á það að sýna skynsemi í leikmannakaupum.

„Við höfum séð mörg fótboltafélög [líka Liverpool] eyða fram úr hófi,“ sagði John Henry.

„Við höfum og munum halda áfram að einbeita okkur að því að eyða skynsamlega á leikmannamarkaðnum og erum áfram mjög stolt af leikmannahópi okkar í dag,“ sagði Henry.

„Á saman tíma höldum við áfram að fjárfesta í æfingaaðstöðunni hjá okkur, í aðalstúkunni og eins og er í Anfield Road stúkunni,“ sagði Henry.

Eigendur Liverpool eru að leita sér að nýjum fjárfestum en hafa útilokað það að félagið verði selt eins og slegið var upp fyrr á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×