Varamaðurinn Nelson hetja Arsenal í dramatískum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurmarkinu fagnað.
Sigurmarkinu fagnað. Shaun Botterill/Getty Images

Topplið Arsenal vann vægast sagt dramatískan 3-2 sigur á Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag. Gestirnir frá Bournemouth komust tveimur mörkum yfir en varamaðurinn Reiss Nelson sá til þess að Skytturnar sneru dæminu við og nældu í dýrmæt þrjú stig.

Leikurinn byrjaði skelfilega fyrir Arsenal en gestirnir komust yfir eftir aðeins 11 sekúndna leik. Philip Billing rak skilaði boltanum í netið eftir að boltinn barst til hans inn á markteig. Varnarleikur toppliðsins ekki upp á marga fiska.

Heimamenn urðu fyrir áfalli þegar Leandro Trossard þurfti að fara af velli um miðbik fyrri hálfleiks. Trossard byrjaði leikinn í stöðu fremsta manns þar sem Gabriel Jesus og Eddie Nketiah voru báðir frá vegna meiðsla.

Þrátt fyrir að vera meira með boltann þá tókst Arsenal ekki að brjóta niður þéttan varnarmúr gestanna. Heimamenn vildu á einum tímapunkti fá vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hendi innan vítateigs en samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar virtist ekki um hendi að ræða og leikurinn hélt áfram.

Segja má að annað mark leiksins hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti en það skoraði Marco Senesi, miðvörur Bournemouth, eftir hornspyrnu Joe Rothwell á 57. mínútu leiksins. Eftir það snerist leikurinn heimamönnum í hag.

Thomas Partey minnkaði muninn eftir að Neto, markvörður Bournemouth, hafði ekki náð að kýla hornspyrnu heimamanna nægilega langt í burtu. Boltinn barst aftur inn á teig og Partey var einn á auðum sjó. 

Ekki löngu síðar var staðan orðin 2-2 en varamaðurinn Nelson fór þá upp vinstri vænginn og gaf fyrir markið. Þar mætti varamaðurinn Ben White og lúðraði að marki, Neto náði að verja en boltinn hafði farið yfir marklínuna og Skytturnar búnar að jafna.

Það virtist sem jafntefli yrði niðurstaðan en staðan var enn 2-2 þegar sex mínútna uppbótartíminn var liðinn. Arsenal fór í sókn og fékk hornspyrnu. Boltanum var spyrnt inn á teig, þaðan fór hann til Nelson sem var á vítateigslínunni. Hann þrumaði boltanum í fyrsta, framhjá haug af leikmönnum og í netið. Ótrúlegur endir á ótrúlegum leik, lokatölur 3-2 Arsenal í vil.

Eftir leiki dagsins er Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 63 stig og Manchester City kemur þar á eftir með 58 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira