Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að seinnipartinn komi lægð inn á Grænlandshaf og þá snúist í sunnan fimm til þrettán metra á sekúndu og það hlýni sunnan- og vestanlands með slyddu eða snjókomu og síðar rigningu. Seint í kvöld bæti svo í vind og þá fari að snjóa á norðaustanverðu landinu.
„Vestan og suðvestan kaldi eða stinningskaldi á morgun og dálitlar skúrir eða él, en það verður bjart að mestu suðaustanlands. Eftir hádegi dregur svo úr vindi. Hiti 0 til 6 stig að deginum.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Vestan og suðvestan 8-15 m/s og dálitlar skúrir eða slydduél, en þurrt að kalla á Suðaustur- og Austurlandi. Dregur úr vindi seinnipartinn. Hiti 0 til 6 stig.
Á föstudag: Sunnan og suðvestan 5-13 og dálítil væta með köflum, en léttir til á Austurlandi. Hiti 0 til 7 stig. Hvessir vestanlands um kvöldið.
Á laugardag: Allhvöss eða hvöss sunnanátt um morguninn og rigning, en hægari og þurrt um landið norðaustanvert. Dregur síðan úr vindi og úrkomu. Hiti 2 til 9 stig.
Á sunnudag og mánudag: Suðlæg átt og væta með köflum, en yfirleitt þurrt á Norður- og Austurlandi. Hlýtt í veðri.
Á þriðjudag: Suðvestlæg eða breytileg átt og sums staðar dálítil rigning eða slydda. Kólnar í veðri.