Enski boltinn

Sá yngsti til að skora gegn United á Old Trafford síðan 2001

Smári Jökull Jónsson skrifar
Wilfried Gnonto skýtur boltanum hér framhjá Lisandro Martinez og í netið hjá United í gærkvöld.
Wilfried Gnonto skýtur boltanum hér framhjá Lisandro Martinez og í netið hjá United í gærkvöld. Vísir/Getty

Það tók Wilfried Gnonto aðeins tæpa mínútu að skora fyrir Leeds gegn Manchester United á Old Trafford í gærkvöld. Ekki nóg með það heldur var markið sögulegt.

Manchester United og Leeds gerðu 2-2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld en liðin mættust á Old Trafford, heimavelli United.

Wilfried Gnonto skoraði fyrsta mark Leeds strax á fyrstu mínútu leiksins og sjálfsmark frá Raphael Varane tvöfaldaði forystu gestanna áður en Marcus Rashford og Jadon Sancho skoruðu fyrir United í seinni hálfleiknum og tryggðu heimamönnum eitt stig.

Mark Gnonto í gærkvöld var sögulegt því hann er yngsti leikmaðurinn til að skora gegn United á Old Trafford síðan Jermain Defoe skoraði fyrir West Ham í desember árið 2001. Þá er Gnonto yngsti erlendi leikmaðurinn til að skora á Old Trafford en hann er 19 ára og 95 daga gamall.

„Mér fannst við spila vel, reyndum að berjast saman og sýndum að við erum með gott lið. Við getum unnið gegn öllum og þetta er blendnar tilfinningar því við vildum vinna. Við eigum leik á sunnudag og ætlum að sækja sigur þar,“ sagði Gnonto í viðtali eftir leikinn í gærkvöld.

Gnonto kom til liðs við Leeds í september og skoraði sitt fyrsta mark í janúar í 2-2 jafntefli gegn West Ham. 

„Við viljum byrja leikina vel og sýna andstæðingunum að við séum mættir. Við reyndum að gera það í dag og það tókst. Við fengum á okkur tvö mörk í seinni hálfleik sem er synd.“

Leeds á í harðri fallbaráttu og geta byggt á frammistöðunni í gærkvöld þar sem liðið náði í stig á erfiðum útivelli.

„Þetta var jákvætt í kvöld. Við sýndum karakter og það er mikilvægt. Við getum unnið alla og við erum með mikla hæfileika í liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×