Enski boltinn

Potter þvertekur fyrir ósætti við Aubameyang: „Pierre var bara óheppinn“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pierre Emerick-Aubameyang er ekki í Meistaradeildarhópi Chelsea en Potter býst þó ekki við vandræðum af hálfu Aubameyang.
Pierre Emerick-Aubameyang er ekki í Meistaradeildarhópi Chelsea en Potter býst þó ekki við vandræðum af hálfu Aubameyang. Vísir/Getty

Graham Potter þjálfari Chelsea viðurkennir að það hafi verið erfið ákvörðun að skilja Pierre Emerick-Aubameyang eftir fyrir utan Meistaradeildarhóp Chelsea það sem eftir lifir tímabils.

Í gær bárust fréttir af því að Gabonmaðurinn Pierre Emerick-Aubameyang hefði verið tekinn út úr Meistaradeildarhópi Chelsea svo hægt væri að búa til pláss fyrir einhvern þeirra fjölmargra leikmanna sem félagið keypti í janúarmánuði.

Enzo Fernandez, Mykhailo Mudryk og Joao Felix fengu allir sæti í hópnum en Aubameyang og Benoit Badiashile, sem Chelsea keypti frá Monaco í janúar, eru utan hóps. Aðeins mátti tilkynna þrjá nýja leikmenn í hópinn en Chelsea keypti átta leikmenn í janúarglugganum.

Chelsea gerði jafntefli við Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær en þar var Aubameyang ekki í leikmannahópi Chelsea. Kom það af stað sögum um ósætti milli hans og Graham Potter þjálfara en Potter þvertekur fyrir að sú sé raunin.

„Ég held að þetta verði ekki erfitt því Pierre er atvinnumaður,“ sagði Potter þegar hann var spurður hvort staðan gagnvart Aubameyang væri vandræðaleg fyrir hann.

„Hann gerði ekkert rangt, Pierre er bara óheppinn. Hann mun berjast fyrir sínu sæti það sem eftir lifir tímabilsins.“

Potter segir að ákvörðunin hafi verið hans og stundum þurfi að taka erfiðar ákvarðanir.

„Ég hef ekkert á móti honum. Þetta er erfitt, ég finn til með honum og skil vonbrigði hans en ég ber ábyrgð á því að taka þessi erfiðu samtöl og útskýra mínar ákvarðanir eins vel og ég get.“

Aubameyang hefur ekki byrjað deildarleik hjá Chelsea síðan gegn Arsenal þann 6.nóvember. Hann gekk til liðs við Chelsea á lokadegi félagaskiptagluggans í sumar og er búinn að skora þrjú mörk á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×