Erlent

Pizza­bakari reyndist eftir­lýstur mafíósi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Edgardo Greco var orðinn pizzabakari í Frakklandi.
Edgardo Greco var orðinn pizzabakari í Frakklandi. Lögreglan í Cosenza

Ítalski mafíósinn Edgardo Greco var nýlega handtekinn í frönsku borginni Saint-Étienne eftir sautján ár á flótta. Greco hafði breytt um nafn og starfaði sem pizzabakari í borginni. Greco hafði verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða tvo bræður árið 1991.

Greco var hluti af 'Ndrangheta-mafíunni sem starfaði á Calabria-svæðinu í suðurhluta Ítalíu. Mafían er í dag ein sú áhrifamesta á Ítalíu og er einnig með starfsemi um nánast alla Evrópu og í Suður-Ameríku. 

Árið 1991 var 'Ndrangheta-mafían í stríði við aðra mafíu. Þá myrti Greco bræður úr hinni mafíunni en lík þeirra fundust aldrei. Talið er að þau hafi verið leyst upp í sýru. Þá hefur Greco einnig verið sakaður um að hafa reynt að myrða annan mann í heimabæ sínum árið eftir. 

Það var árið 2006 sem dómari gaf út handtökutilskipun á hendur Greco. Þá flúði hann land og var að lokum dæmdur í lífstíðarfangelsi án þess að koma fyrir dóm. Átta árum síðar, árið 2014, dúkkaði hann upp í frönsku borginni Saint-Étienne. Þar hóf hann störf sem pizzabakari á ítölskum veitingastað og kallaði sig Paolo Dimitrio. 

Hann hafði verið svo lengi í burtu að árið 2021 birtist hann í dagblaði í bænum þar sem hann ræddi eldamennsku sína. Í viðtalinu sagðist hann vera fæddur Ítali en innst inni væri hann frá Saint-Étienne. 

Þegar viðtalið birtist var hins vegar saksóknarinn Nicola Gratteri á hælum Greco. Hann hafði rakið ferðir hans og fundið Greco í borginni. Frönsk yfirvöld fóru þá að fylgjast með honum þar til Gratteri og hans teymi gat staðfest að þetta væri í raun og veru Greco. Hann var því handtekinn og fluttur aftur til Ítalíu þar sem hann mun dvelja í fangelsi restina af ævi sinni. 

Þetta er í annað sinn á árinu sem ítalskur mafíósi er handtekinn eftir fjölda ára á flótta. Um miðjan janúar var Matteo Messina Denaro handtekinn eftir þrjátíu ára fangelsi en hann hafði þó ekki flúið land líkt og Greco heldur dvaldi hann enn nálægt heimabæ sínum á Sikiley. Denaro og Greco eru ekki hluti af sömu mafíu. 


Tengdar fréttir

„Þú veist hver ég er. Ég er Matteo Messina Denaro“

Mafíósinn Matteo Messina Denaro var handtekinn á Sikiley í gærmorgun eftir að hafa verið í þrjátíu ár á flótta frá lögreglunni á Ítalíu. Líkt og gera má sér grein fyrir var það hægara sagt en gert að handsama kauða en alvarleg veikindi hans voru það sem komu lögreglu á rétta slóð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×