Greenwood var handtekinn fyrir rúmu ári, grunaður um nauðgunartilraun, líkamsárás og þvingunartilburði gagnvart fyrrverandi kærustu sinni. Hann átti að mæta fyrir rétt í nóvember á þessu ári en nú hefur málið verið fellt niður. Samkvæmt The Sun dró lykilvitni sig til baka og ný sönnunargögn komu fram í málinu.
Hinn 21 árs Greenwood hefur ekkert spilað með United síðan hann var handtekinn. Ekki liggur fyrir hvenær, eða hvort, hann spilar aftur fyrir félagið. Það sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að félagið væri með málið til rannsóknar innanhúss og ákvörðun um næstu skref yrði ekki tekin fyrr en henni væri lokið.
Í yfirlýsingu sem Greenwood sendi frá sér sagði hann að þungu fargi væri af sér létt eftir að málið var látið niður falla.
„Það er mikill léttir að málinu sé loks lokið. Ég vil nýta tækifærið og þakka fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn. Ég tjái mig ekki frekar um málið að svo stöddu,“ sagði Greenwood.
Hann lék síðast fyrir United gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni 22. janúar í fyrra. Alls hefur hann leikið 129 leiki fyrir United og skorað 35 mörk. Greenwood hefur leikið einn A-landsleik fyrir England, gegn Íslandi í Þjóðadeildinni haustið 2020.