Enski boltinn

Umboðsmaður Haaland segir að hann sé eins milljarðs evra virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland í baráttu um boltann við Thomas Partey hjá Arsenal.
Erling Haaland í baráttu um boltann við Thomas Partey hjá Arsenal. AP/Dave Thompson

Umboðsmaður norska framherjans Erling Braut Haaland hefur gefið út sitt mat á því hvað leikmaðurinn hans ætti að kosta ef allt væri tekið til greina.

Umboðsmaður Haaland heitir Rafaela Pimenta og hún ræddi raunvirði framherja Manchester City í viðtali við spænska blaðið AS á dögunum.

Að mati Pimenta þá er Haaland eins milljarðs evra virði en það jafngildir 154 milljörðum íslenskra króna.

Rökin að baki þessari rosalegu upphæð segir Pimenta eftirfarandi í viðtalinu:

„Með því að kaupa hann færðu stuðningsmenn, mörk, úrslit, fagmennsku, samfélagsmiðlaefni, orðspor og styrktaraðila. Ef þú leggur allt þetta saman þá sést þar að virði leikmannsins samanstendur af mörgum hlutum,“ sagði Rafaela Pimenta.

„Ég veit að enginn er að fara að borga sjö hundruð milljónir evra fyrir leikmann en ég er ekki í vafa um það hversu mikils virði Erling væri fyrir nýtt félag. Að minnsta kosti eins milljarðs evra virði,“ sagði Pimenta.

Haaland hefur verið einn heitasti framherji heims í langan tíma og hefur vaxið við hvert skref sem hann hefur tekið. Nú síðast fór hann frá Dortmund í þýsku deildinni til Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.

Haaland hefur skorað 25 mörk í fyrstu 19 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er þegar kominn með 31 mark í öllum keppnum á sinni fyrstu leiktíð og það eru tæpir fjórir mánuðir eftir af tímabilinu.

Dýrasti knattspyrnumaður heims er enn Neymar en Paris Saint Germain keypti hann frá Barcelona fyrir 222 milljónir evra árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×