Enski boltinn

Nýja Chelsea-stjarnan baðst afsökunar á gömlu myndbandi

Sindri Sverrisson skrifar
Mykhailo Mudryk grípur um andlitið eftir að hafa klikkað á færi gegn Liverpool á dögunum.
Mykhailo Mudryk grípur um andlitið eftir að hafa klikkað á færi gegn Liverpool á dögunum. Getty/Laurence Griffiths

Úkraínumaðurinn Mykhailo Mudryk, nýja stjarnan í liði Chelsea, neyddist til að biðjast afsökunar á TikTok-myndbandi sem birtist síðasta sumar, þar sem hann fór með línur úr rapplagi og notaði N-orðið.

Í myndbandinu sást Mudryk ásamt félaga sínum og fóru þeir með línur úr laginu Freestyle með bandaríska rapparanum Lil Baby, en í laginu kemur N-orðið alls 16 sinnum fyrir.

Kick It Out, samtök sem berjast gegn kynþáttaníði í fótbolta, segja Mudryk verða að gera betur:

„Kick It Out fordæma alla rasíska orðanotkun, þar á meðal notkun N-orðsins, burtséð frá samhenginu. N-orðið er afar móðgandi og það að stjörnur fótboltans noti það leiðir bara til þess að fólk sé útilokað frá íþróttinni,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna.

Talsmaður Mydryks sagði við The Sun: „Mykhailo er virkilega leiður yfir því að hafa móðgað fólk með myndbandi sem birt var á TikTok-reikningi hans í júlí í fyrra,“ og bætti við:

„Þó að ætlun hans hafi aðeins verið að fara með línur úr lagi þá sér Mykhailo eftir ákvörðun sinni og viðurkennir af öllu hjarta að þetta var ekki við hæfi. Myndbandið hefur síðan verið fjarlægt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×