Erlent

Yfirburðasigur hershöfðingjans í Tékklandi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar niðurstöðurnar voru kynntar.
Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar niðurstöðurnar voru kynntar. Getty/Kabon

Petr Pavel, fyrrverandi NATO hershöfðingi og háttsettur starfsmaður tékkneska hersins, hefur verið kjörinn forseti Tékklands. Pavel hlaut 57 prósent atkvæða en mótframbjóðandi hans, Andrej Babiš fyrrverandi forsætisráðherra, laut í lægra haldi með tæp 43 prósent.

Pavel er sagður ætla að styrkja bönd við Evrópusambandið og heitir meiri stuðning við Úkraínu. Nýkjörinn forsetinn er mjög hlynntur Vesturlöndum og segja stjórnmálafræðingar ytra að kjörið muni fela í sér miklar breytingar á stjórn Tékka.

Andrej Babiš sem er vellauðugur háði harða kosningabaráttu og sakaði Pavel um að vera stríðsæsingamaður.

Ríkisstjórn Babiš féll í október 2021 en þá hafði hann staðið af sér margs konar hneykslismál. Meðal annars leiddu Pandóruskjölin í ljós að hann hafi stundað vafasama viðskiptahætti. Flokkur Babiš er gagnrýninn á Evrópusambandið, segir ógn stafa af flóttafólki. Þá hefur hann einnig stutt Rússa í innrásinni í Úkraínu.

„Kjörið mun hafa miklar breytingar í för með sér. Síðustu tíu ár höfum við verið með forseta sem kasta rýrð á landið og íbúa þess. Babiš var fylgjandi Rússum, gerði viðskiptaþvinganir gegn Rússum að engu, sniðgekk stjórnarskrána og var ruddi,“ segir Jiří Pehe, stjórnmálagreinandi og forstjóri New York University í Prag.

Pehe segir nýja forsetann lofa mjög góðu. Hann sé alþýðlegur og jarðbundinn og hafi vestræn gildi, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×