Enski boltinn

„Maður vill ná fyrsta markinu eins fljótt og hægt er“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Weghorst er ánægður með að vera kominn á blað.
Weghorst er ánægður með að vera kominn á blað. Vísir/Getty

Hollendingurinn Wout Weghorst skoraði sitt fyrsta mark fyrir Manchester United í kvöld þegar liðið vann 3-0 sigur á Nottingham Forest í enska deildabikarnum. Hann er ánægður með að vera kominn á blað hjá United. 

„Þetta var frábært kvöld fyrir okkur. Frábær úrslit eftir þennan fyrri leik, sigurinn gefur okkur góða möguleika á að komast í úrslit,“ sagði Weghorst í viðtali við Skysports eftir leikinn í kvöld.

Leikurinn var sá fyrri af tveimur í einvígi liðanna í undanúrslitum deildabikarsins. United er því í ansi góðri stöðu fyrir síðari leikinn á heimavelli.

Weghorst var vitaskuld ánægður með að hafa skorað sitt fyrsta mark fyrir Manchester United en hann gekk til liðs við félagið á láni frá Burnely á dögunum eftir að hafa verið á láni hjá Besiktas fyrr á leiktíðinni. 

„Það er alltaf sérstakt og þú vilt skora mörk. Þú vilt helst ná fyrsta markinu eins fljótt og hægt er þannig að ég er mjög ánægður. Ég held að þetta hafi verið mikilvægt augnablik sömuleiðis, það gaf okkur þægilega tilfinningu í hléinu.“

„Við byrjuðum vel og skoruðum frábært mark. Við náðum ekki stjórn á leiknum eins og við hefðum viljað og leikurinn var kaflaskiptur. Við vorum heppnir að mark hjá þeim var dæmt af og það var mikilvægt að komast í 2-0 fyrir hálfleikinn.“

Weghorst kom United í 2-0 með marki rétt undir lok fyrri hálfleiks.

„Ég sneri mér að markinu og vonaðist eftir fráksti og boltinn datt fyrir mig. Þetta var fínt.“

„Við vorum ekki ánægðir með hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik, við vildum hafa meiri stjórn á leiknum. Það er eitthvað sem breyttist í seinni hálfleiknum og með 3-0 markinu í lokin varð þetta enn betra. Þetta voru frábær úrslit í kvöld, klárum þetta í næstu viku.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.