Erlent

Á­rásar­maðurinn í Mon­ter­ey fannst látinn í sendi­ferða­bíl

Atli Ísleifsson skrifar
Meintur árásarmaður hét Huu Can Tran og var 72 ára.
Meintur árásarmaður hét Huu Can Tran og var 72 ára. AP

Lögregla í Kaliforníu hefur staðfest að maðurinn, sem grunaður er um að hafa skotið tíu manns til bana í dansstúdíói í Monterey á laugardagskvöld, hafi fundist látinn í sendiferðabíl.

Maðurinn sem um ræðir hét Huu Can Tran og var 72 ára. Hann virðist hafa notast við skotvopn til að svipta sig lífi, að því er fram kom í máli Robert Luna, lögreglustjórans í Los Angeles, í gær.

Árásin var gerð á sama tíma og verið var að halda upp á áramót samkvæmt kínverska dagatalinu í Monterey Park. Stórt hlutfall íbúa á svæðinu eru af kínverskum uppruna.

Lögregla vinnur nú að því að reyna að komast að tilefni árásarinnar. Auk þeirra tíu sem létust í árásinni særðust tíu til viðbótar og eru sjö þeirra enn á sjúkrahúsi. Ástand sumra er enn sagt alvarlegt.

Luna segir að enn sé verið að bera kennsl á einhverja þeirra sem létust en að svo virðist sem að þau hafi verið á sextugs- og sjötugsaldri og mögulega einhverjir enn eldri. Lögregla hafði áður greint frá því að í hópi látinna hafi verið fimm karlar og fimm konur og að þau hafi öll verið af asískum uppruna.

Árásarmaðurinn fannst í sendiferðabíl í Torrence, um fimmtíu kílómetrum frá árásarstaðnum í Monterey Park.EPA

Í frétt BBC segir að fjöldamorðið, sem sé eitt það mannskæðasta í sögu Kaliforníu, hafi hafist klukkan 22:22 að staðartíma á laugardagskvöld í hinu vinsæla Star Ballroom dansstúdíói í Monterey Park, rúmum tíu kílómetrum austur af Los Angeles.

Maðurinn hafi svo flúið af vettvangi og verið mættur í annað dansstúdíó í bænum Alhambra um hálftíma síðar. Þar hafi fólki tekist að ná hálfsjálfvirkum riffli úr höndum hans, en árásarmanninum tekist að flýja af vettvangi.

Hófst þá umfangsmikil leit lögreglu að manninum og um tólf tímum síðar fannst maðurinn í sendiferðabíl á bílastæði í bænum Torrance, um fimmtíu kílómetrum frá árásarstaðnum í Monterey Park. Umsátursástand hafi myndast en lögregla svo heyrt skothljóð út bílnum þegar lögreglumenn nálguðust bílinn.


Tengdar fréttir

Skaut tíu til bana og gengur enn laus

Maður skaut minnst tíu til bana og særði tíu til viðbótar í bæ skammt frá Los Angeles í Bandaríkjunum í nótt. Umfangsmikil hátíð stóð yfir í bænum Monterey Park vegna nýs tunglárs og voru tugir þúsunda manna í bænum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×