Erlent

Skaut tíu til bana og gengur enn laus

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásarmaðurinn gengur enn laus eftir að hafa myrt tíu og sært tíu til viðbótar.
Árásarmaðurinn gengur enn laus eftir að hafa myrt tíu og sært tíu til viðbótar. AP/Jae C. Hong

Maður skaut minnst tíu til bana og særði tíu til viðbótar í bæ skammt frá Los Angeles í Bandaríkjunum í nótt. Umfangsmikil hátíð stóð yfir í bænum Monterey Park vegna nýs tunglárs og voru tugir þúsunda manna í bænum.

Lögreglan segir mann hafa farið inn á skemmtistað og hafið þar skothríð á fólk úr hálfsjálfvirkri byssu. Hann gengur enn laus og stendur umfangsmikil lögregluaðgerð yfir.

Lögreglan varðist lengi allra frétta af skotárásinni og hefur enn ekki gefið miklar upplýsingar um hana.

Lítið sem ekkert er vitað um árásarmanninn, samkvæmt frétt LA Times, annað en það að hann er karlkyns og gengur enn laus. Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir og er ekki búið að opinbera neins konar lýsingu á honum.

Maður sem rekur veitingastað á móti skemmtistaðnum þar sem árásin var framin sagði blaðamönnum LA Times að fólk hefði komið hlaupandi þar inn og sagst hafa séð mann vopnaðan hálf sjálfvirkan riffil og með mikið af skotfærum. Maðurinn er sagður hafa skotið á fólk af handahófi.

Skotárásir sem þessar eru tiltölulega algengar í Bandaríkjunum.

AP fréttaveitan segir þetta sé fimmta skotárásin í Bandaríkjunum í þessum mánuði þar sem nokkrir eru skotnir. Þá sé þetta mannskæðasta árás Bandaríkjanna frá því 21 var skotinn til bana í grunnskóla í Uvalde í Texas í maí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×