Enski boltinn

Ten Hag segir að Sancho sé hvorki líkamlega né andlega tilbúinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jadon Sancho hefur ekki spilað með liði Manchester United í marga mánuði.
Jadon Sancho hefur ekki spilað með liði Manchester United í marga mánuði. Getty/Matthew Ashton -

Jadon Sancho er ekki að spila með liði Manchester United þessa dagana og knattspyrnustjórinn Erik ten Hag segir leikmann sinn þurfa að komast í gegnum ýmislegt áður en það breytist.

Sancho hefur ekki komið við sögu hjá United síðan í október og fór ekki með út til Spánar í æfingarbúðirnar sem fóru fram á meðan HM í Katar stóð. Sancho fór í staðinn til Hollands og æfði þar einn.

Hinn 22 ára gamli sóknarmaður er kominn aftur til Manchester en Erik ten Hag segir hann ekki enn tilbúinn til að snúa aftur í liðið. Vandamálið er að hans mati ekki bara líkamlegt.

„Á þessari stundu þá er hann er ekki í líkamlegu formi til þess,“ sagði Erik ten Hag á blaðamannafundi.

United keypti Jadon Sancho fyrir 85 milljónir evra í júlí 2021 en hann hefur ekki staðið undir þeim verðmiða og tíminn á Old Trafford hefur reynt mikið á ungan mann.

„Þetta er líkamlegt en er líka tengt andlega hlutanum. Mér finnst hann þó vera að sýna framfarir hvað varðar líkamlega þáttinn og það mun hjálpa honum. Ég vona að hann geti snúið aftur sem fyrst en ég get samt ekki sagt hér hvenær það verður,“ sagði Ten Hag.

Ten Hag ætlar ekki að reka á eftir fyrrverandi leikmanni Manchester City og Borussia Dortmund.

„Ég vildi fá Jadon til baka eins fljótt og auðið er. Á sama tíma er ekki hægt að þvinga fram þetta ferli. Ég mun gera allt mitt til að hjálpa en sumt ræður maður ekki við. Ég verð því að sýna þolinmæði,“ sagði Ten Hag.

„Við höfum ekki alltaf marga kosti fram á völlinn. Jadan er einn af þeim leikmönnum sem geta hjálpað okkur þar. Þegar hann kemur til baka þá höfum við einn möguleika í viðbót og um leið höfðum við meiri möguleika á að vinna fullt af leikjum,“ sagði Ten Hag.

„Fótboltamenn eru ekki vélmenni. Enginn er eins. Ég held að þú þurfti að nálgast hvern og einn á sérstakan hátt. Við héldum það með Jadon og það hefur verið best fyrir alla,“ sagði Ten Hag.

Manchester United mætir Everton í kvöld í enska bikarnum en leikurinn er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsending klukkan 19.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×