Ó­­­trú­­leg Faes-staða mið­varðarins kom Liver­pool til bjargar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það myndi útskýra margt ef Wout Faes hefði spilað með lokuð augun í kvöld.
Það myndi útskýra margt ef Wout Faes hefði spilað með lokuð augun í kvöld. Chris Brunskill/Getty Images

Wout Faes, 24 ára gamall miðvörður Leicester City, reyndist hetja Liverpool þegar Refirnir heimsóttu Anfield í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Gestirnir komust yfir snemma leiks en tvö ótrúleg sjálfsmörk Faes tryggðu Liverpool 2-1 sigur.

Gestirnir frá Leicester komust yfir aðeins fjögurra mínútna leik. Eftir langt útspark léku leikmenn Leicester boltanum sín á milli og allt í einu var Kiernan Dewsbury-Hall bara einn á auðum sjó og sloppinn í gegn. Jordan Henderson mislas aðstæður og miðverðir Liverpool voru hreinlega hvergi sjáanlegir.

Staðan orðin 0-1 og heimamenn í allskyns vandræðum. Það var þangað til á 38. mínútu þegar Trent Alexander-Arnold átti fyrirgjöf frá hægri sem virtist vera að fara skoppa í hendurnar á Danny Ward í marki Leicester.

Wout Faes sá hins vegar eitthvað sem enginn annar sá og taldi að um gríðarlega hættulega fyrirgjöf væri að ræða. Hann hljóð að boltanum og henti sér í tæklingu með þeim afleiðingum að boltinn fór í boga yfir Ward og í markið. Ótrúlegt sjálfsmark í alla staði og staðan orðin jöfn, 1-1.

Faes stöðvaði hins vegar ekki þar. Þegar rétt rúm mínúta var til loka venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik óð Darwin Núñez að marki. Ward kom út á móti Núñez sem ákvað að lyfta boltanum yfir markvörðinn. Þaðan fór hann í stöngina og skoppaði rétt fyrir framan marklínuna þegar Faes kom askvaðandi og þrumaði boltanum í eigið net.

Annað sjálfsmark miðvarðarins og staðan orðin 2-1 Liverpool í vil. Þó bæði lið hafi fengið allt í lagi færi í síðari hálfleik þá tókst hvorugu þeirra að koma boltanum í netið og leiknum lauk með 2-1 sigri heimaliðsins. Leikurinn sjálfur fer ekki í sögubækurnar en frammistaða Faes mun lifa lengi, því miður fyrir hann.

Liverpool er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 16 leiki á meðan Leicester er í 13. sæti með 17 stig.

Einn annar leikur fór fram í deildinni í kvöld, Brentford vann 2-0 útisigur á West Ham United þökk sé mörkum Ivan Toney og Josh Dasilva. Var þetta fimmta tap West Ham í röð.

Brentford er í 9. sæti með 23 stig á meðan West Ham er í 17. sæti með 14 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira