Erlent

Eld­flaugum rigndi yfir Úkraínu: „Til­gangs­laus villi­mennska“

Árni Sæberg skrifar
Hér má sjá rústir heimilis sem jafnað var við jörðu í Kænugarði í dag.
Hér má sjá rústir heimilis sem jafnað var við jörðu í Kænugarði í dag. Roman Hrytsyna/AP

Úkraínuher skaut niður meirihluta 69 eldflauga sem Rússlandsher skaut yfir landið í dag. Fjöldi heimila og mikilvægir innviðir skemmdust í árásunum.

Loftvarnarflautur ómuðu víða í Úkraínu snemma í morgun. Íbúar borga á borð við Kænugarð, Odessa og Lviv vörðu morgninum í sprengjubyrgjum og í þeirri síðastnefndu olli sprenging rafmagnsleysi í meirihluta borgarinnar. Reuters greinir frá.

Í dag var greint frá því að ríflega eitt hundrað eldflaugum hefið verið skotið á Úkraínu í morgun en í tilkynning Úkraínuhers segir að eldflaugarnar hafi verið 69 talsins. Herinn hafi skotið niður 54 þeirra.

„Tilgangslaus villimennska. Þetta eru einu orðin sem koma mér til hugar þegar ég sé Rússland skjóta annarri eldflaugaárás á friðsælar úkraínskar borgir rétt fyrir gamlársdag,“ segir Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, á Twitter.

Þá segir hann að hlutleysi standi ekki til boða þegar Rússland fremji slíka fjöldastríðsglæpi. „Að þykjast vera hlutlaus jafngildir því að vera með hliðhollur Rússlandi,“ segir Kuleba.

Eyðilögðu mikilvæga innviði

Rússlandsher jafnaði minnst átján heimili almennra borgara við jörðu víða um Úkraínu, að því er segir í tilkynningu Úkraínuhers. AP hefur eftir embættismönnum í Kharkív að minnst tveir hafi látist í árásum á borgina í dag.

Íbúar Kharkív hafa verið án rafmagns og rennandi vatns í rúmlega hálft ár. Hér má sjá einn þeirra, Svetlönu, sækja sér vatn í fötur.Evgeniy Maloletka/AP

Þá segir í tilkynningu varnarmálaráðuneytis Úkraínu að minnst tíu byggingar, mikilvægar innviðum landsins, hafi verið eyðilagðar. Þar ber helst að nefna rafstöð í Lviv en Andriy Sadovyi, borgarstjóri borgarinnar, sagði á Telegram að ríflega 90 prósent íbúa væru án rafmagns eftir árásirnar í morgun.

Þá sagði Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, á Telegram að líklega muni þurfa að grípa til þess ráðs að skrúfa fyrir rafmagn víða í landinu til þess að koma í veg fyrir skemmdir á flutningskerfinu.

Hann segir jafnframt að árás Rússlandshers hafi verið þaulskipulögð og að flugher Úkraínu hafi sýnt ótrúlega hæfileika og skilvirkni við vörn lofthelginnar í morgun.

Yfirvöld í Kreml hafa ítrekað neitað árásum á almenna borgar en Úkraínumenn segja daglegar eldflaugaárásir þeirra eyðileggja borgir, bæi og orku- og heilbrigðisinnviði landsins, að því segir í frétt Reuters.


Tengdar fréttir

Segja yfir hundrað flugskeyti á lofti yfir Úkraínu

Loftvarnaflautur eru sagðar hljóma víða um Úkraínu eins og stendur og þá hafa heyrst sprengingar í Kænugarði. Oleksiy Arestovyck, ráðgjafi Vólódímírs Selenskís, sagði í morgun að fleiri en 100 flugskeytum hefði verið skotið á loft af Rússum, í nokkrum bylgjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×