Enski boltinn

Með ör fyrir lífs­tíð eftir að fá glas í and­litið á leik Man City og Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki voru öll mætt til að skemmta sér yfir leik Man City og Liverpool í enska deildarbikarnum.
Ekki voru öll mætt til að skemmta sér yfir leik Man City og Liverpool í enska deildarbikarnum. Chris Brunskill/Getty Images

Unglingsstúlka hlaut höfuðáverka og ör fyrir lífstíð þegar plastglas fullt af smápeningum skall á andliti hennar á meðan Manchester City og Liverpool áttust við í enska deildarbikarnum.

Manchester City vann 3-2 sigur á Liverpool í enska deildarbikarnum í liðinni viku og er komið í 8-liða úrslit keppninnar. Það fór þó ekki allt stuðningsfólk Man City glatt heim af Etihad-vellinum en unglingsstúlka varð fyrir skelfilegri lífsreynslu.

The Telegraph greinir frá því að 15 ára stúlka hafi fengið plastglas í andlitið sem væri ekki frásögufærandi nema glasið hafði verið fyllt af smápeningum og var kastað úr töluverðri hæð. Hlaut hún höfuðáverka og ör sem mun fylgja henni að eilífu.

Myndbandsupptökur sýna að glasinu var kastað af svæðinu þar sem stuðningsfólk Liverpool var staðsett á vellinum. Ekki hefur tekist að finna sökudólginn en hans er nú leitað. Takist að hafa hendur í hári hans þá mun hann eiga yfir höfði sér lífstíðarbann á bæði Etihad sem og Anfield, heimavelli Liverpool.

Þetta var langt frá því eina atvikið sem er til skoðunar eftir leikinn:

  • Stuðningsmaður Man City var rekinn af leikvanginum eftir að hafa gerst sekur um kynþáttaníð í garðs fatlaðs stuðningsmanns Liverpool.
  • Smápeningar og reyksprengja var meðal þess sem var hent í fólk.
  • Tveir menn voru handteknir eftir að reyna smygla eldfærum, blysum, inn á leikvanginn.
  • Ráðist var á 53 ára gamlan mann að leik loknum. Hann þurfti að fara upp á spítala.

Bæði félög hafa fordæmt hegðun stuðningsfólksins sem hagaði sér á þennan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×