Jóhann Berg spilaði allan leikinn á Old Traf­ford en Man United fór nokkuð þægi­lega á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson missti af Aaron Wan-Bissaka sem lagði upp fyrra mark Man United í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson missti af Aaron Wan-Bissaka sem lagði upp fyrra mark Man United í kvöld. Twitter@ManUtd

Manchester United lagði Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley í enska deildarbikarnum í kvöld. Lokatölur á Old Trafford 2-0 heimamönnum í vil.

Erik ten Hag stillti upp nokkuð sterku liði í kvöld og voru alls fimm leikmenn í byrjunarliðinu sem spiluðu á HM í Katar. Jóhann Berg byrjaði í liði gestanna en liðið er sem stendur á toppi B-deildar.

Leikurinn var nokkuð lengi af stað en á 27. mínútu kom Christian Eriksen heimaliðinu yfir. Bruno Fernandes átti þá frábæra sendingu á Aaron Wan-Bissaka sem tók hlaupið utan á Jóhann Berg.

Wan-Bissaka gaf boltann í fyrsta frá endalínunni inn á teig þar sem Eriksen kom á ferðinni og skilaði boltanum auðveldlega í netið. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Þegar 57 mínútur voru komnar á klukkuna kom annað mark heimamanna. Það var af dýrari gerðinni en Scott McTominay vann boltann á miðjum eigin vallarhelmingi. McTominay gaf á Marcus Rashford sem tók 55-60 metra sprett áður en hann lét vaða á markið úr þröngu færi utarlega í vítateig Burnley.

Skotið var fast og endaði réttum megin við stöngina, staðan orðin 2-0 og sigur Man United svo gott sem í höfn. Gestirnir fengu ágætis færi í leiknum en tókst aldrei að koma boltanum í netið. Fór það svo að Man United vann 2-0 sigur og er komið áfram í næstu umferð. Jóhann Berg spilaði allan leikinn í liði Burnley.

Önnur úrslit í kvöld voru þau að Nottingham Forest vann 4-1 útisigur á Blackburn Rovers. Brennan Johnson [2], Jesse Lingard og Taiwo Awoniyi með mörk Forest. Scott Wharton skoraði fyrir Blackburn. Þá vann Charlton Athletic nokkuð óvæntan sigur á Brighton & Hove Albion en leikurinn endaði með vítaspyrnukeppni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira