Íslenski boltinn

Tiernan tekur sjötta sumarið í röð með Tindastól

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Murielle Tiernan í leik með Tindastól á móti Val þegar Stólarnir voru síðast í efstu deild sumarið 2021.
Murielle Tiernan í leik með Tindastól á móti Val þegar Stólarnir voru síðast í efstu deild sumarið 2021. Vísir/Hulda Margrét

Bandaríska knattspyrnukonan Murielle Tiernan hefur samið um að koma aftur til Tindastóls næsta sumar.

Tiernan segir frá því á samfélagsmiðlum að hún ætli að taka sjötta sumarið í röð á Króknum en Tindastólskonur unnu sér aftur sæti í Bestu deildinni í sumar.

Tiernan skoraði 15 mörk í 17 leikjum í Lengjudeildinni 2022 og varð næstmarkahæst.

Þegar Tiernan kom fyrst sumarið 2018 þá var Tindastóll í C-deildinni en fór strax upp þökk sé ekki síst 24 mörkum í 16 leikjum frá henni.

Stólarnir voru síðan komnir alla leið í efstu deild eftir tvö ár í b-deildinni þar sem Tiernan skoraði 49 mörk í 34 leikjum sumurin 2019 og 2020.

Hún hefur nú skorað 106 mörk í 103 leikjum fyrir Tindastól í öllum keppnum.

Tiernan náði aðeins að skora 2 mörk í 17 leikjum í úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum síðan en ætlar sér örugglega að bæta þá tölfræði næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×