Erlent

Jafnaðar­flokkurinn vann sigur í Fær­eyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarmanna, var ánægður á kjörstað í gær og eftir talningu atkvæða.
Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarmanna, var ánægður á kjörstað í gær og eftir talningu atkvæða. Javnaðarflokkurin

Jafnaðarflokkur Færeyja er sigurvegari í þingkosningunum sem fram fóru þar í landi í gær. Flokkurinn náði níu þingsætum sem er bæting um tvö frá fyrra þingi og er þar með orðinn stærsti flokkur Færeyja eftir að hafa fengið 26,6 prósent atkvæða.

Fólkaflokkurinn tapaði hins vegar sex prósentustigum og missti tvö þingsæti. Flokkurinn fer úr því að hafa verið stærsti flokkur Færeyja en er nú sá þriðji stærsti á eftir Sambandsflokknum sem fékk tuttugu prósent atkvæða.

Alls eiga 33 þingmenn sæti á færeyska þinginu og þarf því sautján þingmenn til að mynda meirihluta.

Úrslit kosninganna þýða að ríkisstjórnin er fallin og að Jafnaðarflokkurinn er með pálmann í höndunum þegar kemur að því að mynda nýja stjórn.

Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarmanna, þykir því líklegastur til að verða næsti lögmaður Færeyja en hann gegndi embættinu á árunum 2015 til 2019 þegar Jafnaðarmenn sátu í stjórn með Þjóðveldi og hinum frjálslynda flokki Framsókn.

Johannesen sagði eftir eftir kosningarnar að hann gæti hugsað sér að mynda ríkisstjórn með Þjóðveldi, sem berst fyrir sjálfstæði Færeyja og hefur verið í stjórnarandstöðu síðustu ár, eða hinum borgaralega Sambandsflokki sem hefur leitt ríkisstjórn frá árinu 2019. Þjóðveldi fékk sex menn kjörna nú og Sambandsflokkurinn sjö.

Úrslit færeysku þingkosninganna 2022: 

  • Fólkaflokkurinn: 18,9 prósent, sex þingmenn (2019: 24,5 prósent, átta þingmenn)
  • Sambandsflokkurinn: 20 prósent, sjö þingmenn (2019: 20,4 prósent, sjö þingmenn)
  • Jafnaðarflokkurinn: 26,6 prósent, níu þingmenn (2019: 22,1 prósent, sjö þingmenn)
  • Sjálfstýri 2,7 prósent: (2019: 3,4 prósent, einn þingmann)
  • Þjóðveldi: 17,7 prósent, sex þingmenn (18,1 prósent, sex þingmenn)
  • Framsókn: 7,5 prósent, þrír þingmenn (4,6 prósent, tvo þingmenn)
  • Miðflokkurinn: 6,6 prósent, tvo þingmenn (5,4 prósent, tvo þingmenn)

Høgni Hoydal, leiðtogi Þjóðveldis, segist ekki í vafa um hvernig ríkisstjórn skuli mynda. Augljóst sé að flokkarnir sem hafi verið saman í stjórnarandstöðu – Jafnaðarmenn, Þjóðveldi og Framsókn – eigi að mynda ríkisstjórn.

Bárður á Steig Nielsen, leiðtogi Sambandsflokksins, hefur gegnt embætti lögmanns síðustu ár, en eftir kosningarnar 2019 náðu Sambandsflokkurinn, Fólkaflokkurinn og Miðflokkurinn saman um myndun ríkisstjórnar.

Boðað var til kosninga nú eftir að Bárður vék formanni Miðflokksins, Jenis af Rana, úr embætti utanríkisráðherra.


Tengdar fréttir

Boða til kosninga í Fær­eyjum eftir út­göngu Mið­flokksins

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, hefur boðað til þingkosninga þann 8. desember næstkomandi. Miðflokkurinn sagði sig úr ríkisstjórnarsamstarfi í gær eftir að Jenis av Rana var vikið úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra. 

Kann að enda með að boðað verði til þing­kosninga

Færeyski Miðflokkurinn hefur sagt skilið við ríkisstjórn landsins eftir að Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, ákvað að reka formann Miðflokksins, Jenis av Rana, úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra í gær. Miklar líkur eru á að boðað verði til þingkosninga í Færeyjum til að leysa úr þeirri stöðu sem upp er komin í færeyskum stjórnmálum.

Lætur utan­­­ríkis­ráð­herrann Jenis av Rana gossa

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, hefur ákveðið að nýta heimild í lögum til að reka Jenis av Rana úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra. Bárður segir að umburðarlyndi sitt í garð ráðherrans sé á þrotum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.