Erlent

Kann að enda með að boðað verði til þing­kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins, tók við embætti lögmanns Færeyja árið 2019.
Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins, tók við embætti lögmanns Færeyja árið 2019. EPA

Færeyski Miðflokkurinn hefur sagt skilið við ríkisstjórn landsins eftir að Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, ákvað að reka formann Miðflokksins, Jenis av Rana, úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra í gær. Miklar líkur eru á að boðað verði til þingkosninga í Færeyjum til að leysa úr þeirri stöðu sem upp er komin í færeyskum stjórnmálum.

Í stuttorðri yfirlýsingu í gær tilkynnti flokksstjórn Miðflokksins að flokkurinn sé hættur í stjórnarsamstarfinu en Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn hafa starfað saman að stjórn landsins síðan 2019.

Góðar líkur eru taldar á því að niðurstaðan verði að boðað verði til kosninga í landinu þar sem Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn, auk stuðningsflokksins Sjálfstæðisflokksins, eru saman með fimmtán þingmenn en sautján þarf til að vera með meirihluta. Bárði hefur enn ekki tekist að fá aðra flokka á þingi til að ganga til liðs við ríkisstjórnina.

Á þrotum

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja og formaður Sambandsflokksins, tilkynnti í gær að hann hefði ákveðið að nýta heimild í færeyskum lögum til að reka Jenis av Rana úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra. Sagði Bárður að umburðarlyndi sitt í garð ráðherrans væri á þrotum.

Jenis av Rana hafði þá ítrekað talað gegn stefnu Nielsen og gert honum erfitt fyrir í störfum sínum. Jenis er sömuleiðis þekktur fyrir að hafa talað gegn réttindum hinsegin fólks og hefur sagt að ótækt sé að forsætisráðherra sé hinsegin.

Áður en tilkynning Bárðar barst hafði Høgni Hoydal, formaður stjórnarandstöðuflokksins Tjóðveldis, boðað vantrauststillögu á hendur ráðherranum.

Ekkert gengur

Lögmaðurinn gæti reynt að leita til annarra flokks á færeyska þinginu um að koma inn í ríkisstjórn, en ekki virðast vera miklir möguleikar í stöðunni hvað það varðar. 

Þannig hafa til dæmis Jafnaðarmenn sagt að þeir muni ekki hlaupa undir bagga og ganga til liðs við ríkisstjórnina. Sömu sögu er að segja af þingmönnum Framsóknar.

Kosningar fóru síðast fram í Færeyjum í ágúst 2019.


Tengdar fréttir

Lætur utan­­­ríkis­ráð­herrann Jenis av Rana gossa

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, hefur ákveðið að nýta heimild í lögum til að reka Jenis av Rana úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra. Bárður segir að umburðarlyndi sitt í garð ráðherrans sé á þrotum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×