Íslenski boltinn

Fleiri Fær­eyingar á leiðinni í Kópa­vog?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klæmint Olsen fagnar einu af landsliðsmörkum sínum.
Klæmint Olsen fagnar einu af landsliðsmörkum sínum. UEFA

Það er nóg um að vera á skrifstofu Íslandsmeistara Breiðabliks en félagið er nú orðað við færeyska landsliðsmanninn Klæmint Olsen sem leikur með NSÍ Runavík í heimalandinu.

Breiðablik hefur verið virkt á markaðnum síðan liðið lyfti Íslandsmeistaratitlinum og fyrr í dag var greint frá því að Ágúst Eðvald Hlynsson væri kominn heim í Kópavoginn.

Blekið var vart þornað á samningi Ágústs Eðvalds þegar Bolt.fo greindi frá því að framherjinn Klæmint Olsen gæti verið á leiðinni til Ísland. Er Breiðablik nefnt í frétt Bolt.fo sem og færeysku liðin HB og B36.

Framherjinn Klæmint Olsen hefur aldrei spilað fyrir annað lið en NSÍ Runavík og er markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi með 242 mörk í 363 leikjum. Þá hefur hann skorað 10 mörk í 54 A-landsleikjum.

Olsen sagði við Bolt.fo að hann vissi af áhuga Breiðabliks en gæti ekki meira sagt að svo stöddu.  Fari svo að Olsen gangi í raðir Íslandsmeistaranna þá yrði hann annar Færeyingurinn á mála hjá liðinu en Blikar festu kaup á Patrik Johannesen frá Keflavík fyrir skemmstu.

Þó nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Breiðabliks síðan leiktíðinni lauk. Ásamt leikmönnunum tveimur sem nefndir eru hér að ofan hefur Breiðablik fengið Eyþór Aron Wöhler frá ÍA, Alex Frey Elísson frá Fram og Arnór Svein Aðalsteinsson frá KR.

Þá hefur liðið misst nokkra leikmenn en Ísak Snær Þorvaldsson fór í atvinnumennsku til Rosenborg í Noregi. Adam Örn Arnarson fór í Fram, Elfar Freyr Helgason fór í Val og samningur Mikkel Qvist rennur út um áramótin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.