Íslenski boltinn

Ágúst snýr aftur í Smárann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Eðvald Hlynsson hefur samið við uppeldisfélag sitt á nýjan leik.
Ágúst Eðvald Hlynsson hefur samið við uppeldisfélag sitt á nýjan leik. breiðablik

Ágúst Eðvald Hlynsson er genginn í raðir Breiðabliks frá Horsens í Danmörku. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Íslandsmeistarana.

Ágúst er uppalinn Bliki. Hann lék sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk 2016. Hann skoraði meðal annars í 0-3 bikarsigri á Kríu aðeins sextán ára og tveggja mánaða og varð þar með yngsti markaskorari Breiðabliks í meistaraflokki.

Árið 2017 fór Ágúst til Norwich City á Englandi en hélt síðan til Danmerkur, fyrst til Bröndby og síðan Horsens. Undanfarin sumar hefur hann svo leikið sem lánsmaður hjá Víkingi, FH og Val. Ágúst varð bikarmeistari með Víkingum 2019.

Ágúst, sem er 22 ára, hefur leikið 79 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað fjórtán mörk. Þá hefur hann leikið tólf bikarleiki og skorað tvö mörk.

Ágúst er annar Blikinn sem snýr aftur heim eftir að síðasta tímabili lauk. Hinn þrautreyndi Arnór Sveinn Aðalsteinsson er einnig kominn til Breiðabliks frá KR. Auk þeirra Ágústs hefur Breiðablik fengið Eyþór Aron Wöhler frá ÍA, Alex Frey Elísson frá Fram og Patrik Johannessen frá Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×