Maðurinn framdi verknaðinn, ásamt vitorðsmönnum sínum, snemma árs 2021. Ásamt því að skjóta og særa aðstoðarmann Lady Gaga, stal hann tveimur af þremur hundum sem aðstoðarmaðurinn var á gangi með.

Hundarnir þrír eru allir franskir bolabítar og greindu miðlar vestanhafs frá því að Lady Gaga myndi greiða hálfa milljón Bandaríkjadala eða 71,8 milljónir íslenskra króna. Hundunum var síðar skilað heilum á húfi.AP greinir frá því að maðurinn sem hafi skotið aðstoðarmann Lady Gaga hafi samið sig frá réttarhöldum og hafi verið dæmdur til 21 árs fangelsisvistar. Hann er einn úr hópi þriggja sem sögð eru hafa framið verknaðinn.
Greint er frá því að þau sem frömdu glæpinn hafi ekki vitað að um hunda Lady Gaga hafi verið að ræða. Þau hafi verið að leita að hundum af þessu tagi enda séu þeir verulega verðmætir séu þeir hreinræktaðir.