Fjórir hinna handteknu tilheyra glæpagengi, samkvæmt lögreglunni í Los Angeles.
Í frétt CNN segir að þeir fyrstu sem voru handteknir séu á aldrinum átján til 27 og hin tvö séu fjörutíu og fimmtíu ára. Meðal þeirra handteknu er konan sem skilaði hundunum eftir að Lady Gaga bauð fram fundarlaun.
Undir lok febrúar var Ryan Fischer, aðstoðarmaður og vinur söngkonunnar, á göngu með þrjá franska bolabíta hennar í Los Angeles þegar ráðist var á hann. Fischer var skotinn í bringuna þegar hann neitaði að láta ræningjana fá hundana, sem heita Koji, Miss Asia og Gustavo.
Fischer særðist alvarlega en ekki lífshættulega og ræningjarnir náðu þeim Koji og Gustavo.
Sjá einnig: Aðstoðarmaður Lady Gaga tjáir sig um skotárásina
Árásin náðist á öryggismyndavél nágranna Fishcer og vakti atvikið gífurlega athygli.
Lady Gaga var stödd á Ítalíu við tökur kvikmyndar. Hún bauð fljótt fram hálfrar milljóna dala fundarlaun fyrir hundana tvo. Skömmu seinna skilaði kona þeim, sem sagðist hafa fundið þá. Hún hefur verið tengd föður eins þeirra þriggja sem rændu hundinum og voru þau öll handtekin.
Lögreglan segir að ekki sé talið að ræningjarnir hafi vitað að hundarnir væru í eigu Lady Gaga. Þess í stað hafi þeir gert sér grein fyrir því hve verðmæt þessi hundategund væri.