Erlent

Að­stoðar­maður Lady Gaga tjáir sig um skot­á­rásina

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Önnur myndanna sem Fischer birti á Instagram. Búist er við að hann nái fullum bata.
Önnur myndanna sem Fischer birti á Instagram. Búist er við að hann nái fullum bata. Instagram/@valleyofthedogs

Ryan Fischer, aðstoðarmaður söngkonunnar Lady Gaga, er á batavegi eftir að hann var skotinn í síðustu viku þegar hann var á gangi með hunda söngkonunnar. Tveimur hundanna var stolið en þeim var komið aftur til söngkonunnar á föstudag.

Fischer var á gangi með hundana í Los Angeles síðastliðið miðvikudagskvöld þegar tveir menn réðust að honum og skutu hann einu skoti í bringuna. Því næst námu þeir tvo hunda Gaga á brott, þá Koji og Gustav. Þriðji hundurinn, Miss Asia, varð eftir hjá Fischer. Það segir hann að hafi orðið honum til happs.

„Angistaróp mín róuðust þegar ég horfði á hana, þó ég hafi áttað mig á því að blóðið sem umlauk hana hafi verið mitt eigið,“ sagði Fischer í annari af tveimur Instagram-færslum sem hann birti um árásina í dag.

„Ég hélt utan um hana eins og ég gat, þakkaði henni fyrir öll ævintýrin okkar, bað hana afsökunar á að hafa ekki getað passað upp á bræður hennar og lofaði svo að ég myndi reyna að bjarga þeim, og sjálfum mér,“ skrifaði Fischer í færslunni.

Færslunni fylgdi mynd af Fischer á spítalanum en gert er ráð fyrir að hann nái sér að fullu af sárum sínum.

Hundar Lady Gaga skiluðu sér til söngkonunnar á föstudag. Kona sem kveðst hafa fundið hundana kom þeim til lögreglunnar í Los Angeles, sem kom þeim síðan á réttan stað. Þá liggur ekki fyrir hvort konan fær í sinn hlut þá hálfa milljón dollara sem Gaga hafði heitið hundaræningjunum ef þeir skiluðu Koji og Gustav. Gaga hét því þó í tísti að hver sem skilaði hundunum fengi verðlaunin, sem nema rúmlega 63 milljónum króna.


Tengdar fréttir

Aðstoðarmaður Lady Gaga skotinn og hundum hennar rænt

Tveir menn réðust að aðstoðarmanni söngkonunnar Lady Gaga í Los Angeles í gærkvöldi og skutu hann einu sinni í bringuna. Því næst rændu mennirnir tveimur af þremur hundum söngkonunnar og flúðu af vettvangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×