Erlent

Mótmælin í Kína kæfð í fæðingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Gremja vegna strangra sóttvarnaaðgerða kínverskra stjórnvalda braust út í mótmælum í Beijing og fleiri borgum um helgina.
Gremja vegna strangra sóttvarnaaðgerða kínverskra stjórnvalda braust út í mótmælum í Beijing og fleiri borgum um helgina. Vísir/EPA

Mikill viðbúnaður lögreglu var í nokkrum stórum borgum Kína og svo virðist sem að mótmæli sem brutust út víða um helgina hafi nú fjarað út. Stjórnvöld eru sögð byrjuð að leita uppi fólk sem tók þátt í þeim.

Þúsundir mótmæltu ströngum sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins á götum borga eins og Beijing og Sjanghæ um helgina. Sumir mótmælenda kölluðu jafnvel eftir afsögn Xi Jinpings forseta. Mótmælunum hefur verið lýst sem þeim útbreiddustu í Kína frá því í stúdentauppreisninni sem var barin niður árið 1989.

Frekari aðgerðir voru boðaðar í Beijing í gær en þær runnu út í sandinn þegar fjölmennt lögreglulið kom sér fyrir á fundarstaðnum. Í Sjanghæ kom lögregla fyrir varnargirðingum og fjöldi fólks var handtekinn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Minniháttar mótmæli í borginni Hangzhou í suðurhluta landsins voru kveðin niður fljótt og þátttakendur handteknir í gærkvöldi.

Reuters-fréttastofan hefur eftir mótmælendum að kínversk stjórnvöld séu byrjuðu að grennsast fyrir um þá sem tóku þátt í mótmælum um helgina. Einhverjr hafi verið beðnir um að mæta á lögreglustöð og gefa skýrslu um hvað þeir gerðu á sunnudagskvöld.

„Við erum öll að eyða skilaboðasögu okkar í örvæntingu,“ hefur Reuters eftir einum mótmælanda í Beijing.


Tengdar fréttir

Út­breiddustu mót­mæli í Kína í rúm­lega þrjá­tíu ár

Mótmæli sem brutust út í fjölda kínverskra borga um helgina eru sögð þau mestu frá því í stúdentauppreisninni sem var barin niður í blóðbaði á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Reiði vegna strangra og langvarandi sóttvarnaaðgerða var kveikjan að mótmælunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×