Enski boltinn

Nkunku fer til Chelsea næsta sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Christopher Nkunku mun leika í bláu á næstu leiktíð.
Christopher Nkunku mun leika í bláu á næstu leiktíð. Martin Rose/Getty Images

Það virðist ekkert geta komið í veg fyrir að franski sóknarmaðurinn Christopher Nkunku fari til enska fótboltafélagsins Chelsea sumarið 2023. Nkunku á að baki 8 A-landsleiki fyrir Frakkland og var einn þeirra sem átti að fara til Katar þar sem HM fer nú fram. Hann þurfti hins vegar að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.

Hinn 25 ára gamli Nkunku hefur verið frábær í liði RB Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni undanfarin misseri. Hann gekk til liðs við félagið árið 2019 en hann spilaði þar áður með uppeldisfélagi sínu París Saint-Germain í heimalandinu.

Nkunku er fjölhæfur framherji og getur spilað sem fremsti maður eða í „holunni“ á bakvið framherjann. Einnig getur hann leikið á vængjunum ef þess þarf. Talið er að Chelsea muni borga 60 milljónir evra til að fá hann í sínar raðir.

Nkunku hefur skorað 12 mörk og gefið 2 stoðsendingar í 15 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni. Þá hefur hann skorað 3 mörk og gefið eina stoðsendingu í 6 leikjum í Meistaradeild Evrópu.

Honum er ætlað að fríska upp á sóknarleik Chelsea en liðið hefur aðeins skorað 17 mörk í 14 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Þá virðist Graham Potter ekki hafa mikla trú á Pierre Emerick-Aubameyang né Christian Pulisic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×