Erlent

Lík­leg­a loft­varn­a­flaug sem villtist af leið

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá þorpinu Przewodow í Póllandi þar sem tveir dóu í gær eftir að eldflaug lenti þar. Líklegast er um loftvarnaflaug frá Úkraínumönnum að ræða.
Frá þorpinu Przewodow í Póllandi þar sem tveir dóu í gær eftir að eldflaug lenti þar. Líklegast er um loftvarnaflaug frá Úkraínumönnum að ræða. AP/Michal Dyjuk

Líkur eru á að flugskeytið sem banaði tveimur í Póllandi í gær hafi verið úkraínsk loftvarnaflaug sem villtist af leið. Rússar skutu gífurlegum fjölda stýriflauga á skotmörk víðsvegar um Úkraínu í gær. Í fyrstu var talið að ein þeirra eða fleiri hefðu misst marks og lent í Póllandi.

Svo virðist þó sem að um sé að ræða S-300 loftvarnaflaug sem Úkraínumenn reyndu að nota til að skjóta niður eina af stýriflaugum Rússa en villtist af leið og lenti innan landamæra Póllands, með áðurnefndum afleiðingum.

Sjá einnig: Ástandið alvarlegt eftir umfangsmestu árás Rússa

AP fréttaveitan hefur eftir þremur heimildarmönnum sínum í ríkisstjórn Bandaríkjanna að bráðabirgðaniðurstöður bendi til þess að um úkraínska loftvarnarflaug sé að ræða. Wall Street Journal hefur sömu upplýsingar eftir öðrum heimildarmönnum í Bandaríkjunum.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í gærkvöldi að ólíklegt væri að flugskeytinu hefði verið skotið frá Rússlandi

Sjá einnig: Biden segir ólíklegt að flugskeytinu hafi verið skotið frá Rússlandi

Fregnir hafa borist af því í dag að ráðamenn í Póllandi hafa ekki virkjað fjórða ákvæði stofnsamnings Atlantshafsbandalagsins eftir atvikið en það ákvæði snýr að umræðu meðal aðildarríkja um öryggi eins eða allra þeirra. Þykir þetta til marks um að Pólverjar hafi komist að sömu niðurstöðu og Bandaríkjamenn.

Atvikið verður rætt í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í dag.AP/Olivier Matthys

Ráðamenn í Póllandi sögðu í gær að flugskeytið hefði verið framleidd í Rússlandi en það gæti vel átt við S-300 loftvarnaflaugar Úkraínumanna.

Sjá einnig: Fullyrða að flugskeytið hafi verið rússneskt

Bæði yfirvöld í Póllandi og leiðtogar NATO hafa gefið í skyn um að ekki sé um árás að ræða. Þess í stað hefur verið talað um atvik.

Sérfræðingar sem skoðuðu myndir af braki eldflaugarinnar sögðu í gærkvöldi að um S-300 loftvarnaflaug frá Úkraínu væri um að ræða.

Málið verður rætt á fundi Norður-Atlantshafsráðsins í dag, þar sem sendiherrar aðildarríkja NATO munu koma saman og skoða þau gögn sem liggja fyrir um atvikið og ræða viðbrögð við því.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun einnig koma saman í dag og ræða innrás Rússa í Úkraínu en sá fundur var skipulagður fyrir atvikið í gær.

Þá munu varnarmálaráðherrar þeirra ríkja sem standa við bakið á Úkraínumönnum funda í dag, þar sem atvikið verður án efa einnig rætt. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, verður einnig á fundinum.

Auka viðbúnað

Ráðamenn í Úkraínu hafa haldið því fram að um rússneska stýriflaug hafi verið að ræða. Þeirra á meðal voru Vólódímír Selenskí, forseti, og Dmitro Kuleba, utanríkisráðherra. Selenskí hefur í kjölfarið rætt við Andrzej Duda, forseta Póllands, og þá væntanlega um atvikið. Hvað þeir sögðu við hvorn annan liggur þó ekki fyrir.

Pólverjar hafa lýst því yfir í kjölfarið að viðbúnaður hersins verði aukinn vegna atviksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×