Erlent

Ástandið alvarlegt eftir umfangsmestu árás Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaugar hæfðu þrjú íbúðarhús í Kænugarði.
Eldflaugar hæfðu þrjú íbúðarhús í Kænugarði. AP/Andrew Kravchenko

Úkraínumenn segja Rússa hafa skotið minnst 85 eldflaugum á skotmörk víða um landið í dag. Stór hluti landsins sé rafmagnslaus og sömuleiðis netleysi víða. Árásin er sögð vera mögulega sú umfangsmesta frá því innrás Rússa hófst í febrúar.

Engir sjálfsprengjudrónar frá Íran voru notaðir við árásirnar.

Margar Eldflaugar voru skotnar niður, samkvæmt talsmanni flughers Úkraínu, en margar til viðbótar náðu þó til skotmarka sinna. Ráðamenn í Kænugarði segja ástandið alvarlegt í kjölfar árásarinnar.

Samhliða slæmu gengi á víglínum Úkraínu og aukinni gagnrýni heima fyrir hafa forsvarsmenn rússneska hersins gert ítrekaðar eldflauga- og drónaárásir á borgaraleg skotmörk og innviði í Úkraínu. Stór hluti þessa árása hefur dreifst að orkuverum og dreifikerfi Úkraínu.

Markmiðið með þessum árásum virðist vera að draga baráttumóðinn úr Úkraínumönnum og grafa undan grunnstoðum úkraínska ríkisins og gera rekstur þess erfiðari til lengri tíma.

Með þessu vilja ráðamenn í Moskvu einnig draga úr gagnrýni heima fyrir á stríðsrekstur þeirra í Úkraínu.

Hér má sjá myndband sem tekið var í sprengjuskýli í Úkraínu í dag.

Ekki fyrsta umfangsmikla árásin

Úkraínumenn unnu nýverið mikinn sigur þegar Rússar hörfuðu frá vesturbakka Dniproár og Kherson-borg í suðurhluta landsins. Borgin var eina héraðshöfuðborgin sem Rússar hafa hernumið frá því innrás þeirra hófst í febrúar og vendingarnar marka mikil kaflaskil í átökunum í Úkraínu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rússar gera umfangsmiklar eldflaugaárásir á Úkraínu en það var einnig gert eftir undanhaldið frá Kharkív-héraði og eftir að árásin var gerð á brúnna yfir Kerchsund, sem tengir meginland Rússlands við Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014.

Sjá einnig: Úkraínumenn með frumkvæðið og von á frekari gagnárásum

Ráðamenn í Kænugarði hafa sagt að árásir sem þessar geri lítið annað en að stappa stálinu í úkraínsku þjóðina. Þær sýni nauðsyn þess að sigra Rússa og reka þá á brott frá öllum hernumdum svæðum landsins.

Wopke Hoekstra, utanríkisráðherra Hollands, var staddur í Kænugarði í dag og þurfti að leita skjóls í sprengjubyrgi. Í tístum sem hann birt fyrr í dag sagði hann Hollendinga staðráðna í að standa við bakið á Úkraínumönnum, þeir gætu treyst á Hollendinga.


Tengdar fréttir

Stríðsreksturinn sagður valda stórfelldri losun

Innrás Rússa í Úkraínu hefur leitt til gríðarlegrar losunar á gróðurhúsalofttegundum, að sögn fulltrúa Úkraínu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þeir segjast safna upplýsingum um „umhverfisglæpi“ Rússa.

Tóku eigin málaliða af lífi með sleggju

Rússneskir málaliðar Wagner Group birtu um helgina myndband sem sýndi meðlim hópsins tekinn af lífi með sleggju. Rússneski auðjöfurinn sem rekur málaliðahópinn og tengist Vladimír Pútín, forseta Rússlands, nánum böndum, lofaði myndbandið.

Sel­ensk­í heim­sótt­i Kher­son

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, heimsótti Kherson-borg í morgun. Hersveitir Rússa hörfuðu nýverið frá borginni en eru þrátt fyrir það í nokkur hundruð metra fjarlægð, hinu megin við Dniproá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×