Erlent

Lofar að láta Pútín heyra það

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rishi Sunak tók við embætti forsætisráðherra Bretlands í síðasta mánuði.
Rishi Sunak tók við embætti forsætisráðherra Bretlands í síðasta mánuði. Justin Tallis/Getty

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, heitir því að láta ríkisstjórn Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, heyra það á fundi þjóðarleiðtoga stærstu þjóða heims í vikunni.

G20 leiðtogafundurinn fer fram á Balí í Indónesíu í vikunni, en Sunak ferðaðist þangað síðdegis í dag. Embættismenn sem sækja ráðstefnuna höfðu búið sig undir að fordæma innrás Rússa í Úkraínu beint við Pútín, en í síðustu viku tilkynntu rússnesk stjórnvöld að hann yrði ekki á svæðinu. Utanríkisráðherrann Sergei Lavrov myndi sækja ráðstefnuna í hans stað. 

Utanríkisráðherrann má vænta þess að vanþóknun þjóðarleigtoga víðs vegar að verði beint að honum.

„Stríð Pútíns hefur valdið eymd um allan heim, eyðilegt líf og steypt alþjóðahagkerfinu í óvissu. Þessi G20 leiðtogafundur verður ekki eins og venjulega. Við munum gagnrýna stjórnvöld Pútíns og varpa ljósi á þá fyrirlitningu sem þeir hafa á alþjóðasamvinnu og virðingu fyrir fullveldi þjóða, sem G20 stendur fyrir,“ sagði Sunak áður en hann lagði af stað til Indónesíu. 

Neita að brosa í viðurvist Rússanna

G20 leiðtogafundurinn er fundur 20 stærstu ríkja í heimi með tilliti til hagkerfa þeirra. Mörg eiga þau sameiginlegt að hafa tekið mikinn efnahagslegan skell eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þess vegna er búist við því að andrúmsloftið á fundinum verði vægast sagt þvingað, einkum og sér í lagi í garð Rússa.

Sem dæmi um það er ekki gert ráð fyrir að fulltrúar ríkjanna muni stilla sér saman upp fyrir hópmynd, eins og venjan er, þar sem leiðtogar hinna 19 ríkjanna vilja ekki láta sjá sig brosandi á meðal fulltrúa rússnesku ríkisstjórnarinnar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×