Erlent

Sagðir sækja fram úr nokkrum áttum í Kherson

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskur hermaður í Kherson-héraði.
Úkraínskur hermaður í Kherson-héraði. Getty/Metin Aktas

Hersveitir Úkraínu hafa náð árangri gegn Rússum í Kherson-héraði í dag og í gær. Rússar eru sagðir hafa verið sigraðir í nokkrum þorpum á vesturbakka Dniproár og hafa sprengt upp nokkrar brýr til að gera Úkraínumönnum erfitt um vik.

Fregnir af svæðinu eru enn nokkuð óljósar en útlit er fyrir að Úkraínumenn hafi náð að sækja fram úr nokkrum áttum í Kherson.

Í gær bárust fregnir af því að Úkraínumenn hefðu náð tökum á bænum Snihurivka, sem liggur beint norður af Kherson-borg, eftir harða bardaga við Rússa. Í kjölfarið hafa frásagnir af undanhaldi Rússa frá svæðinu orðið háværari.

Rússar eru sagðir hafa sprengt brýr suður af Snihurivka í morgun og í nótt, til að gera Úkraínumönnum erfiðara að sækja áfram þar. Þá eru Rússar einnig sagðir hafa sprengt upp fleiri brýr þar sem Úkraínumenn hafa einnig verið að sækja fram.

Úkraínumenn hafa einnig sótt fram gegn Rússum á austurhluta víglínunnar í Kherson og þá með bökkum Dnipro.

Rússar hafa um nokkurra vikna skeið gefið í skyn að þeir ætli að hörfa frá vesturbakka Dnipro og þar með Kherson-borg, sem er eina héraðshöfuðborgin sem Rússar hafa hernumið frá því innrásin hófst í febrúar.

Úkraínumenn hófu í sumar gagnsókn gegn Rússum í Kherson en í aðdraganda hennar sendu Rússar sínar reynslumestu herdeildir til héraðsins. Þar hafa þær herdeildir verið á víglínunum síðan og án mikillar hvíldar. Á þessum tíma hafa Úkraínumenn sprengt upp brýr yfir Dnipro og reynt að gera Rússum erfitt að koma birgðum og hergögnum til hersveita sinna á vesturbakkanum.

Þannig hafa Úkraínumenn viljað þvinga Rússa til að hörfa í stað þess að þurfa að berjast um Kherson-borg, götu fyrir götu, hús fyrir hús.

Á sama tíma og Rússar hafa flutt hermenn frá vesturbakkanum hafa þeir sent aðra í staðinn og flutt hergögn á svæðið. Leppstjórar Rússa í héraðinu hafa sömuleiðis talað um undanhald hersins.

Úkraínumenn hafa hins vegar sagt að ekkert fararsnið væri á Rússum og að líklega væru Rússar að reyna að laða úkraínska hermenn í gildru í kringum Kherson-borg, þar sem Rússar hefðu verið að byggja upp varnir.


Tengdar fréttir

Vill að heimurinn þvingi Pútín til raunverulegra viðræðna

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, tók í gærkvöldi harða afstöðu varðandi mögulegar viðræður við Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Hann sagði að viðræður myndu ekki eiga sér stað nema Rússar létu af tilkalli til landsvæðis Úkraínu og hét hann því að Úkraínumenn myndu ekki hætta að berjast gegn innrás Rússa ef bakhjarlar ríkisins létu af stuðningi þeirra.

75 ára kona barin, skorin og nauðgað

Leppstjórar Rússlands í suðurhluta Úkraínu hafa tilkynnt að fleiri íbúar verði fluttir frá Kherson-héraði en þegar hefur verið gert. Yfirvöld í Kænugarði segir að verið sé þvinga íbúa á brott en Rússar vinna hörðum höndum að því að byggja upp varnir á vestur-bakka Dniproár í kringum Kherson-borg, höfuðborg héraðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×