Enski boltinn

„Þurfum að sýna gæði okkar á vellinum og berjast í gegnum þetta saman“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp var svekktur í leikslok.
Klopp var svekktur í leikslok. James Gill/Getty Images

„Þetta var skref aftur á bak, algjörlega. Mér fannst við byrja vel en fengum svo á okkur þetta undarlega mark,“ sagði Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, eftir 2-1 tap gegn Leeds United í kvöld.

„Við jöfnuðum en af einhverri ástæðu þá gaf það okkur ekki öryggið sem við þurftum aftast. Við áttum erfitt með að stýra leiknum og gáfum boltann of oft frá okkur,“ sagði þjálfarinn en Liverpool hefur nú tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum.

„Strákarnir reyndu, við héldum boltanum og fengum góð færi en á endanum, ef staðan er 1-1 og þú verst eins og við gerðum þá er allt galopið. Á endanum voru þeir tveir á móti tveimur inn í vítateignum okkar og þeir geta klárað slíkt færi. Vandamálið er að við getum ekki stjórnað svona aðstæðum á þessari stundu. Markið er óheppni, svona gerist. Við fengum svipað færi sem við nýttum ekki.“

„Kannski eru sumir leikmenn að spila of mikið. Harvey Elliott hefur verið frábær fyrir okkur á leiktíðinni. Hann byrjaði vel en gat ekki haldið áfram. Thiago hefur verið veikur, frammi eru alltaf sömu leikmennirnir að spila. Þeir eru þeir þrír framherjar sem við eigum eftir. Við verðum að berjast og það er það sem við verðum að gera.“

„Liðsframmistaða byggist alltaf á frammistöðum einstaklinga. Eitt leiðir af sér hitt. Þú getur horft á leikinn, við getum ekki varist eins og við gerðum í seinna markinu en við gerðum það og það er ástæðan fyrir því að við töpuðum. Annars hefði þetta verið stig og við getum haldið áfram. Nú erum við ekki með neitt og það er allt önnur tilfinning.“

„Við þurfum að sýna gæði okkar á vellinum og berjast í gegnum þetta saman. Við höfum átt í vandræðum frá fyrsta degi meiðslalega séð. Leikmenn hafa þurft að spila frá fyrsta degi. Þetta eru aðstæðurnar sem við erum í og við verðum að hjálpa okkur sjálfum og það er það sem við munum gera,“ sagði Klopp að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×