Íslenski boltinn

Silfurliðið fær góðan liðsstyrk

Sindri Sverrisson skrifar
Andrea Mist Pálsdóttir spilar á Samsung-vellinum í Garðabæ á næstu leiktíð.
Andrea Mist Pálsdóttir spilar á Samsung-vellinum í Garðabæ á næstu leiktíð. @fcstjarnan

Knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir er gengin til liðs við Stjörnuna frá Þór/KA og mun spila með liðinu næstu árin.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Stjörnunnar í dag. Stjarnan náði 2. sæti í Bestu deildinni í sumar og tryggði sér þar með einnig sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð.

Félagið hefur endurnýjað samninga við lykilmenn á borð við Jasmín Erlu Ingadóttur og Önnu Maríu Baldursdóttur, og nú bætist miðjumaðurinn Andrea Mist við hópinn.

Andrea er 24 ára gömul en á að baki 3 A-landsleiki og 126 leiki í efstu deild hér á landi. Þá hefur hún einnig leikið erlendis, með Växjö í Svíþjóð á síðasta ári en áður einnig með Orobica á Ítalíu. 

Hér á landi hefur Andrea lengst af síns ferils spilað fyrir uppeldisfélag sitt Þór/KA, eins og hún gerði í sumar, en einnig með Breiðabliki og FH.

„Ég er gríðalega stolt og ánægð með nýja samninginn hjá Stjörnunni og get ekki beðið eftir að hefjast handa. Liðið er stúfullt af hæfileikaríkum og góðum leikmönnum eins og árangur sumarsins gaf að kynna. Aðstaðan og umgjörðin er frábær og hlakka ég mikið til komandi tíma í Garðabænum,“ er haft eftir Andreu í fréttatilkynningu Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×