Erlent

Tvö lík fundist eftir flug­slysið undan strönd Kosta Ríka

Atli Ísleifsson skrifar
Rainer Schaller stofnaði líkamsræktarstöðvakeðjuna McFit árið 1997.
Rainer Schaller stofnaði líkamsræktarstöðvakeðjuna McFit árið 1997. EPA

Fimm þýskir ríkisborgarar og svissneskur flugmaður eru talin af eftir að flugvél fórst í Karíbahafi, undan strönd Kosta Ríka, á föstudaginn. Þýski auðjöfurinn Rainer Schaller, stofnandi líkamsræktarstöðvanna McFit, var um borð í vélinni.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Kosta Ríka hafa lík af einum fullorðnum og einu barni fundist í sjónum, nærri þeim stað þar sem brakið fannst.

Leit stendur enn yfir á hafsvæði um 28 kílómetra frá Limon-flugvelli. Jorge Torres, ráðherra málefna almannavarna í Kosta Ríka, segir að svo virðist sem að vélin hafi skollið á yfirborð sjávar af miklum krafti.

Vélin, sem var af gerðinni Piaggio P.180 Avanti, hvarf af ratsjám þegar hún var á leiðinni frá Palenque í Mexíkó til Limon-flugvallar í Kosta Ríka á föstudaginn.

Talsmaður þýski líkamsræktarstöðvarkeðjunnar McFit, Jeanine Minaty, staðfesti í samtali við þýska blaðið Bild, að Schaller, kærasta hans Christiane Schikorsky, og tvö börn þeirra hafi verið um borð í vélinni. Þar að auki hafi flugmaður og einn maður til viðbótar verið um borð.

McFit er stærsta líkamsræktarstöðvarkeðja Þýskalandi og rekur rúmlega tvö hundruð slíkar stöðvar í Þýskalandi. Að auki eru reknar stöðvar undir merkjum McFit í Austurríki, Ítalíu, Póllandi og Spáni og eru meðlimir stöðvanna rúmlega 1,4 milljónir manna.

Auðævi Schaller voru metin á rúmlega 250 milljónir evra árið 2019, um 35 milljarða íslenskra króna.

Schaller var eigandi félags sem rak raftónlistarhátíðina Love Parade þar sem 21 gestur tróðst undir í Duisburg árið 2010. Eftir hátíðina tilkynnti Schaller að hátíðin yrði ekki haldin aftur.


Tengdar fréttir

Þýskur líkams­ræktar­frömuður um borð í vélinni sem hvarf

Þýski líkamsræktarfrömuðurinn Rainer Schaller er talinn hafa verið um borð í flugvélinni sem hvarf í gærkvöldi. Förinni var heitið frá Mexíkó til Kosta ríka. Yfirvöld telja sig hafa fundið flak vélarinnar í Karíbahafi en hættu við leit í gær vegna slæms veðurs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×