Innlent

Ítrekaður utanvegaakstur í Reykjanesfólkvangi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndir teknar í Reykjanesfólkvangi í september og október.
Myndir teknar í Reykjanesfólkvangi í september og október. Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur fengið ítrekaðar ábendingar eða orðið vitni að akstri bifreiða og torfærutækja utan vega við Vigdísarvallaleið og í nágrenni Kleifarvatns.

Meðal annars er um ræða ökutæki á borð við mótorkrosshjól, fjórhjól og buggy-bíla, að því er fram kemur í tilkynningu frá Umhverfisstofnun. Svæðið sem um ræðir er friðlýst sem Reykjanesfólkvangur

Flest atvikin snúa að akstri mótorkrosshjóla. Slíkur akstur hefur haft veruleg áhrif á ásýnd landsins og valdið umtalsverðum náttúruspjöllum. Með ítrekuðum akstri upp brattar brekkur og fjallshryggi hafa víða myndast breiðir og áberandi slóðar sem setja mikið mark á landslagið, segir í tilkynningunni.

Spólað í hringiUmhverfisstofnun

Dæmi séu um að skilti og merkingar um að akstur sé ekki heimilaður utan vega á svæðinu séu ítrekað virtar að vettugi. Þá séu skilti jafnvel felld niður.

Þetta ólöglega athæfi veldur miklum skemmdum á gróðurfari og jarðminjum á svæðinu, ásamt því að hafa veruleg áhrif á upplifun annarra sem um svæðið fara til að njóta útivistar í annars óspilltri náttúrunni, segir í tilkynningunni.

Umhverfisstofnun

Þar kemur einnig fram að í gegnum umrætt svæði liggja tveir vegir; Krýsuvíkurleið og Vigdísarvallaleið. Frá þeim liggja nokkrir styttri, afmarkaðir og merktir afleggjarar.

Akstur vélknúinna ökutækja utan þessara vega er ólöglegur samkvæmt 31. grein náttúruverndarlaga. Ekki er heimilt að aka á gönguleiðum svæðisins eða eftir þeim slóðum sem akstur torfærutækjanna hefur myndað.

Umhverfisstofnun

Þá bendir Umhverfisstofnun á að nokkur akstursíþróttasvæði séu skilgreind á suðvesturhorni landsins. Umhverfisstofnun tekur við ábendingum um utanvegaakstur og kemur þeim til lögreglu ef tilefni er talið til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×