Ronaldo hagaði sér enn á ný eins og smákrakki þegar hann stóð upp undir lok leiksins og yfirgaf Old Trafford löngu áður en leiknum lauk. Liðið hans var að vinna en það eina sem Portúgalinn var greinilega að hugsa um var að hann fékk ekki að spila.
Ronaldo hafði skorað sigurmark Manchester United á móti Everton á dögunum en þá kom hann inn á sem varamaður. Hann hafði aftur á móti byrjað tvo leiki eftir það án þess að skora.
United liðið var að spila vel í gær en knattspyrnustjórinn Erik ten Hag þurfti engu að síður að svara spurningum um hegðun stórstjörnunnar eftir leikinn.
„Ég ætla ekki að hugsa um það í dag en við munum taka á þessu á morgun,“ sagði Erik ten Hag.
„Einbeiting okkar er á frábæra frammistöðu í dag frá öllum ellefu leikmönnunum. Ég verð meira að segja að leiðrétta sjálfan mig því það voru ekki bara ellefu leikmenn sem voru að spila vel heldur einnig varamennirnir sem komu inn á. Þetta var liðsframmistaða,“ sagði Ten Hag.
„Við munum taka á þessu með Ronaldo á morgun. Það sem við sáum í dag voru ellefu leikmenn sem vörðust og ellefu leikmenn sem sóttu,“ sagði Ten Hag.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ronaldo strunsar af bekknum í miðjum leik því það gerði hann einnig í æfingarleik á móti Rayo Vallecano þegar honum var skipt út af í hálfleik.
Þá talaði Ten Hag um að sú hegðun hafi verið óásættanleg.