Vond akstursskilyrði verða vegna snjókomu og takmarkaðs skyggnis á fjallvegum en gular viðvaranir taka gildi á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra um hádegisbilið. Reikna má með snörpum vindstrengjum við fjöll sunnan- og vestanlands í dag.
Á morgun dregur úr vindi og úrkomu. Norðanáttin verður í átta til fimmtán metrum á sekúndu annað kvöld og skúrir eða él. Bjart verður syðra á landinu.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á mánudag:
Breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað, en birtir til er líður á daginn norðantil. Bjart sunnanlands. Hiti 1 til 9 stig, hlýjast sunnanlands.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðvestanátt og skýjað vestanlands, en bjart austantil. Hiti 3 til 8 stig yfir daginn.
Á fimmtudag:
Stíf sunnanátt með rigningu eða súld vestanlands, en björtu veðri fyrir austan. Heldur hlýnandi í bili.
Á föstudag:
Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða slyddu á Vestfjörðum, dálítil rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi, en allvíða bjartviðri syðra. Kólnandi veður.