Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 3-0 | Þægilegt hjá heimamönnum

Árni Jóhannsson skrifar
Valsmenn léku á alls oddi í kvöld.
Valsmenn léku á alls oddi í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Valur vann loks leik í úrslitakeppni efri hluta Bestu deildar karla í fótbolta þegar Stjarnan heimsótti Hlíðarenda í kvöld. Valsmenn náðu góðum tökum á leiknum og unnu 3-0 að lokum.

Leikurinn var mjög vel leikinn og bæði lið áttu mjög góða spilkafla sem sköpuðu fínar stöður hjá báðum en engin stórfæri litu dagsins ljós hjá Stjörnunni. Þeir náðu fínum langskotum en Valsmenn áttu bestu færi fyrri hálfleiksins og skoruðu eina mark hálfleiksins. Það leit dagsins ljós á 19. mínútu leiksins og var Aron Jóhannsson þar að verki.

Valsmenn héldu boltanum í dágóðan tíma og sendu boltann örugglega 40 sinnum á milli sín áður en þeir gjöfsamlega skáru vörn gestanna í sundur. Ágúst Eðvald Hlynsson fann Aron inn í markteig með þríhyrningsspili og Aron dúndraði boltanum í þaknetið. Frábært mark!

Aron lagði síðar í hálfleiknum boltann á Ágúst Eðvald sem náði ekki að skora en sama uppskrift var að markinu. Ágúst fékk boltann eftir hælsendingu Arons en skotið var máttlaust og auðvelt fyrir Harald.

Fín harka var í leiknum og fékk Ísak Andri Sigurgeirsson, sem var besti maður Stjörnunnar, að finna til tevatnsins og fóru nokkur spjöld á loft. 

Hálfleikurinn leið undir lok og Valsmenn með eins marks forskot.

Stjörnumenn byrjuðu af fínum krafti og ógnuðu örlítið á fyrstu mínútum seinni hálfleiks en Valsmenn náðu fljótt góðri stjórn á leiknum. Komust heimamenn í 2-0 forystu þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.

Birkir Heimisson vann boltann við miðlínuna og gaf á Birki Má Sævarsson sem geystist af stað og fékk fína flugbraut til að hlaupa á vörn gestanna. Hann lét skotið ríða af við vítateigslínuna og Haraldur virtist vera með þetta en boltinn spýttist undir hann og í hornið.

Tíu mínútum síðar gerðu Valsmenn út um leikinn þegar Sigurður Egill Lárusson skoraði þriðja mark þeirra. Haukur Páll lyfti boltanum upp vænginn í hlaupaleiðina fyrir Birki Má sem var á ljóshraða. Hann fann síðan Sigurð Egil inn í teig og hann lúðraði boltanum í samskeytin frá vítapunktinum.

Eftir þetta gerðist fátt markvert og Valsmenn sigldu leiknum í heimahöfn og höfðu sætaskipti við Stjörnuna í deildinni.

Afhverju vann Valur?

Þeir höfðu meiri gæði og náðu betri stjórn á leiknum. Stjörnumenn sköpuðu ekki mörg góð færi þó þeir hafi sýnt fína spilkafla. Valsmenn nýttu líka sína færi og voru mjög skilvirkir í sínum sóknarleik.

Bestir á vellinum?

Birkir Már Sævarsson átti frábæran leik. Ásamt því að skora og leggja upp mark þá stöðvaði hann framgöngu gestanna sín megin á vellinum og upp úr inngripum hans sköpuðust fínar stöður fyrir heimamenn.

Ísak Andri Sigurgeirsson var bestur hjá Stjörnunni. Sóknarleikur Stjörnunnar fór í gegnum hann og þær stöður sem sköpuðust fyrir gestina voru út af honum.

Hvað gekk illa?

Stjörnumönnum gekk illa að skapa almennilega færi til að skora. Þeim gekk líka illa að halda Valsmönnum í skefjum en öll mörkin voru glæsilega spiluð af heimamönnum og litu varnarmenn gestanna mjög illa út á köflum.

Hvað næst?

Valur tekur á mót Breiðablik næsta laugardag á Origo vellinum og Stjarnan tekur á móti KA á Akureyri.

Ísak Andri: Ef ég fæ hann út á kanti þá er verkefnið mitt að ráðast á vörnina og keyra á menn

„Við hefðum þurft að vera aggressívari“, sagði Ísak Andri Sigurgeirsson eftir tap hans manna í Stjörnunni fyrir Val 3-0 þegar hann var spurður að því hvað hans menn hefðu getað gert betur.

„Þeir voru mjög harðir við okkur í fyrri hálfleik sérstaklega og við hefðum þurft að svara hörkunni betur á móti að mínu mati. Svo þurfum við að vera skilvirkari í sóknarleiknum okkar. Það var það sem vantaði upp á.“

Eins og kemur fram að ofan var Ísak besti maður Stjörnunnar og það sem gerðist í sóknarleiknum gerðist í kringum hann. Hann var spurður að því hverjar skipanirnar frá Gústa þjálfara væru.

„Þetta er bara þægilegt hjá okkur. Ef ég fæ hann út á kanti þá er verkefnið mitt að ráðast á vörnina og keyra á menn. Mér finnst það skemmtilegast og er bestur í því og Gústi leggur upp með það fyrir leiki.“

Ísak kom inn á hörku Valsmanna en hann fékk sjálfur nokkrar bylturnar. Hann var spurður að því hvort það væri ekki vottur um virðinguna sem borin er fyrir gæðum hans að vita af því að menn lögðu dálítið upp úr því að skella honum.

„Já, það er skemmtilegt og leiðinlegt. Menn vita hvað maður getur en þetta er aldrei þægilegt. Ég er fínn núna, sem betur fer var þetta bara traðk ofan á ökklann minn en ég kem til.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira