Umfjöllun og myndir: Stjarnan - Víkingur 2-1 | Stjörnu­menn sendu titilinn í Kópavog

Sverrir Mar Smárason skrifar
Stjörnumenn fagna marki Óskars Arnar.
Stjörnumenn fagna marki Óskars Arnar. Visir/ Diego

Stjarnan vann 2-1 endurkomusigur á Víking þegar liðin mættust í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Sigurinn þýðir að Breiðablik er Íslandsmeistari þar sem ekkert lið getur náð þeim að stigum þó þrjár umferðir séu enn eftir af Bestu deildinni. 

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en fljótlega átti eftir að færast fjör í leikinn. Arnór Borg Gudjohnsen sem byrjaði fyrir Víking klikkaði á mjög góðu færi á 23 mínútu og eftir það virtist leikurinn opnast töluvert.

Logi Tómasson skýtur framhjá úr góðu færi.Visir/ Diego

Bæði lið fengu færi til þess að skora í fyrri hálfleik en Víkingur fékk fleiri og betri færi. Ari Sigurpálsson lét Harald verja frá sér einn gegn einum, Logi Tómasson hitti ekki markið úr góðu færi eftir frábæra sendingu frá Viktori Örlygi og svo fékk Pablo Punyed gott færi á 41. mínútu sem Björn Berg Bryde, varnarmaður Stjörnunnar, náði að hoppa fyrir. Hálfleikstölur 0-0 eftir mjög opinn og skemmtilegan fyrri hálfleik.

Það var svo Víkingur sem skoraði fyrsta mark leiksins á 60. mínútu og það gerði Karl Friðleifur, hægri bakvörður. Hann fékk sendingu inn í teig Stjörnunnar frá Pablo Punyed, tók vel við boltanum og átti svo skot sem fór fyrst af Ísaki Andra, leikmanni Stjörnunnar, og síðar í stöngina og inn.

Karl Friðleifur með boltann í leiknum.Visir/ Diego

Það tók Stjörnuna aðeins um 2 mínútur að jafna leikinn. Viktor Örlygur lenti þá í vandræðum með pressu Stjörnumanna og boltinn barst til Kjartans Más Kjartanssonar, 16 ára sóknarmanns Stjörnunnar sem var að byrja sinn fyrsta leik fyrir Garðbæinga. Kjartan renndi boltanum á Óskar Örn sem tók vel við boltanum og þrumaði honum í netið framhjá Ingvari Jónssyni í marki Víkings.

Óskar Örn skorar.Visir/ Diego

Átta mínútum síðar voru heimamenn komnir yfir. Ísak Andri fiskaði þá aukaspyrnu við hlið vítateigs Víkings sem Jóhann Árni spyrnti fyrir markið. Daníel Laxdal reis hæst í teignum, náði góðum skalla á markið og boltinn söng í netinu.

Víkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn. Arnar Gunnlaugsson nýtti allar sínar skiptingar í sóknarleikinn og undir lok leiksins fékk Víkingur fjöldann allan af tækifærum til þess að ná skotum að markinu. Ingvar Jónsson markmaður lék síðustu mínúturnar frammi en allt kom fyrir ekki. Stjörnumenn með góðan sigur og stoðsendingu á erkifjendur sína í Breiðablik sem urðu Íslandsmeistarar í annað sinn við þetta tap Víkinga.

Af hverju vann Stjarnan?

Þegar Víkingar komust loksins yfir þá hefðu þeir, hefði allt verið eðlilegt, átt að vera að skora mark númer fjögur eða fimm. Stjörnumenn nýttu markið hinsvegar til góðs og gáfu meira í. Allir þessir ungu Stjörnumenn sem byrjuðu leikinn og komu inná mættu til þess að spila fyrir Stjörnuna, gáfu ekkert eftir og sýndu kjark, þor og gæði. Víkingarnir gáfu eftir sem er ólíkt þeim en ætli það hafi ekki bara loksins komist inn í hausinn á þeim að Blikar myndu klára þetta í ár.

Hverjir voru bestir?

Mér fannst Kjartan Már Kjartansson bestur hjá Stjörnunni í þessum leik. Mikill skrokkur sem tekur mikið til sín, getur haldið bolta, fínn spilari og tekur uppá allskonar hlutum fram á við sem varnarmenn búast ekki við. Ómótaður ennþá en fullt af hæfileikum.

Kjartan Már Kjartansson átti góðan leik í kvöld. Fæddur árið 2006.Visir/ Diego

Ísak Andri var líka góður. Fór oft illa með varnarmenn Víkinga og kom sér í góðar stöður. Hjá Víkingi átti Karl Friðleifur fínan leik fram á við en var í smá brasi varnarlega.

Hvað mætti betur fara?

Stjörnumenn voru galopnir varnarlega fyrsta klukkutímann í leiknum. Það er ekki boðlegt ætli þeir sér eitthvað í deildinni á næsta ári. Þeir mættu með leikkerfi frá Jökli og spiluðu 3-4-3 með tígul miðju. Það var við það að klikka hræðilega þegar leikmenn liðsins gáfu í.

Hvað gerist næst?

Breiðablik fagnar líklega út vikuna í það minnsta.

Bæði lið eiga þó þrjá leiki eftir í deildinni sem fara væntanlega í að gefa mönnum tækifæri sem hafa minna spilað og skoða hluti fyrir næsta ár.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira