Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Kefla­vík 2-1 | Seiglu­sigur Eyja­manna sem fóru langt með að tryggja sætið að ári

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fram - ÍBV Besta Deild Karla Sumar 2022 KSÍ
Fram - ÍBV Besta Deild Karla Sumar 2022 KSÍ vísir/diego

ÍBV vann 2-1 sigur á Keflavík á heimavelli í Bestu deild karla í knattspyrnu. Þetta er annar sigur Eyjamanna í röð í úrslitakeppni neðri hluta deildarinnar og stigin þrjú eru gríðarlega mikilvæg fyrir ÍBV í fallbaráttunni.

ÍBV komst yfir strax á 4.mínútu þegar Alex Freyr Hilmarsson skoraði úr teignum. Eyjamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Keflvíkingar voru bitlausir fram á við og sköpuðu lítið.

Á 40.mínútu dæmdi Vilhjálmur Alvar Þórarinsson vítaspyrnu á Keflavík þegar Arnar Breki Gunnarsson féll í teignum. Fyrirliðinn Eiður Aron Sigurbjörnsson steig fram og skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og ÍBV leiddi 2-0 í hálfleik.

Eftir 90 sekúndur í síðari hálfleiknum voru Keflvíkingar búnir að minnka muninn þegar Patrik Johanessen skoraði með góðum skalla. Næstu mínútur voru gestirnir mun betri aðilinn og ógnuðu í nokkur skipti.

Eyjamenn voru í vandræðum með að halda boltanum almennilega en þegar Andri Rúnar Bjarnason kom í framlínuna þá var hann ekki lengi að koma sér í færi. Hann fékk tvö algjör dauðafæri á stuttum tíma en gerði ekki nógu vel í að klára.

Síðustu mínúturnar voru svo eign Keflvíkinga. Þeir fengu færi til að skora og meðal annars varði Jón Kristinn Elíasson, sem stóð í marki ÍBV, frábærlega frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni úr aukaspyrnu.

Eyjamenn náðu hins vegar að halda út og fögnuðu vel og innilega að leik loknum. Þeir eru sex stigum frá fallsæti þegar níu stig eru eftir í pottinum.

Af hverju vann ÍBV?

Þeir náðu 2-0 forystu í fyrri hálfleiknum þar sem þeir voru betri aðilinn. Eyjamenn voru þá beittir í sínum aðgerðum og mögulega var markið sem ÍBV skoraði á 4.mínútu töluvert kjaftshögg fyrir gestina.

Í síðari hálfleik gátu Keflvíkingar samt heldur betur gert eitthvað meira en bara minnka muninn. Þeir fengu sín færi og þó svo að ÍBV hafi farið illa með tvö dauðafæri um miðjan hálfleikinn þá voru Keflvíkingar í nokkur skipti nálægt því að jafna.

Eyjamenn eru þó ekki þekktir fyrir það að gefast upp, börðust fram í rauðan dauðann og uppskáru eftir því.

Þessir stóðu upp úr:

Eiður Aron Sigurbjörnsson er búinn að vera mjög góður á tímabilinu og átti virkilega góðan leik í dag. Jón Kristinn Elíasson kom inn í markið með skömmum fyrirvara eftir að Guðjón Orri Sigurjónson meiddist og hann átti fínan leik, greip nokkrum sinnum vel inn í og átti fína vörslu þegar Rúnar Þór reyndi á hann úr aukaspyrnu í síðari hálfleiknum.

Arnar Breki Gunnarsson var duglegur sem ávallt í framlínu ÍBV og varnarlega sýndi Eyjaliðið heilt yfir góða frammistöðu.

Hjá Keflavík var Patrik Johanessen potturinn og pannan í sóknarleiknum. Rúnar Þór átti ágæta spretti og þá er vert að minnast á Sindra Kristin Ólafsson í markinu sem varði í tvígang úr dauðafærum frá Andra Rúnari Bjarnasyni, þó svo að skot Andra Rúnars hafi ekki verið neitt sérstök.

Hvað gekk illa?

Sóknarlega voru Keflvíkingar slakir í fyrri hálfleik. Þeir áttu svo sem sínar sóknir en voru aldrei sérlega nálægt því að ógna marki ÍBV að ráði. Þá gekk leikmönnum ÍBV ekki vel að halda boltanum í síðari hálfleiknum og voru full fljótir að fara í skotgrafirnar.

Andra Rúnari Bjarnasyni gekk ekki vel í þeim færum sem hann fékk en það verður reyndar að teljast ágætt að eiga fjórar skottilraunir eftir að hafa komið inn sem varamaður á 65.mínútu.

Hvað gerist næst?

ÍBV á næst leik gegn ÍA á Skaganum. Þeir töpuðu þar fyrr í sumar og vilja eflaust hefna fyrir það. Skagamenn verða að sækja sigur og nái þeir því tekst þeim að draga ÍBV neðar í baráttunni.

Keflavík fær FH í heimsókn í næstu umferð. FH vann Leikni í dag og fékk þá smá andrými í fallbaráttunni en geta ekkert slakað á. Keflvíkingar hafa gefið út að þeir ætli sér að vinna neðri hluta deildarinnar og þurfa að sækja þrjú stig eigi það að takast.

Sigurður Ragnar: Þetta stóð mjög tæpt hjá þeim

Sigurður Ragnar á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Diego

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var ósáttur með sína menn í fyrri hálfleiknum í dag og segir að hans menn hafi í raun ekki byrjað að spila af krafti fyrr en í hálfleik.

„Mér fannst við ekki koma nógu vel stemmdir til leiks. Við vorum skrefinu á eftir fannst mér og ekki að leggja vinnuna á okkur sem þarf til að ná árangri í svona leik. ÍBV hefði getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleiknum og við fórum yfir stöðuna í hálfleik og ég var ekki par sáttur með framlagið í fyrri hálfleik,“ sagði Sigurður Ragnar í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„Við löguðum þetta í síðari hálfleiknum, skoruðum og settum mikla pressu á ÍBV. Við hefðum eflaust getað skorað fleiri en því miður gekk það ekki upp.“

Eins og Sigurður Ragnar segir þá náðu Keflvíkingar mikilli pressu á Eyjamenn undir lokin og fengu þá tækifæri til að jafna metin.

„Þetta stóð mjög tæpt hjá þeim. Því miður náðum við ekki að klára þetta nógu vel en ég er ánægður með hvernig við komum út í seinni hálfleikinn og hvernig við spiluðum hann. Þá kom baráttan og vinnslan, þetta vantaði í fyrri hálfleik og þá vorum við svolítið að bíða eftir að hlutirnir gerðust og að þeir myndu redda þessu í vörninni ef við misstum boltann.“

„Við vissum að þessi leikur yrði stríð, allt undir hjá ÍBV og það er alltaf erfitt að koma hingað. Við þurfum að jafna þeirra framlag og við byrjuðum ekki að gera það fyrr en á 46.mínútu.“

Keflvíkingar hafa komið mörgum á óvart í sumar, þeir voru nálægt því að komast í úrslitakeppni efri hluta deildarinnar en þeim hafði jafnvel verið spáð falli fyrir tímabilið.

„Þetta er lið sem er á góðri leið, er að bæta sig. Það fengu ungir strákar sénsinn í dag að koma inn og Valur (Þór Hákonarson) jafnaði næstum því leikinn og hann var að koma inn í sínum fyrsta leik. Það hefði verið gaman fyrir hann að ná að setja jöfnunarmarkið.“ 

„Þetta eru efnilegir strákar sem hafa unnið B-riðilinn nú í 2.flokki og töpuðu bikarúrslitaleik þannig að það er bjart framundan hjá Keflavík og við ætlum að reyna að gefa þessum strákum einhver tækifæri í þeim leikjum sem eftir eru.“

Eins og áður segir sigla Keflvíkingar nokkuð lygnan sjó í deildinni, þeir geta ekki fallið og hafa í raun að litlu að keppa.

„Þetta er aðeins öðruvísi. Við viljum klára þessa leiki með sæmd, spila vel og spila sterku liði. Gefa einstaka mönnum tækifæri til að spila eins og við gerðum í dag, Ásgeir Páll (Magnússon) kom inn í liðið og hann er búinn að bíða í allt sumar meira og minna eftir að fá að spila í hægri bakverðinum. Hann stóð sig fínt og svo komu ungir strákar inn af bekknum og þeir voru frískir og komu með orku.“

„Við nálgumst leikina sem eftir eru þannig áfram að við reynum að vinna, við erum drullufúlir að hafa tapað hér í dag. Við berum virðingu fyrir mótinu og munum ekki umturna öllu liðinu okkar en við viljum líka gefa leikmönnum tækifæri. Við erum öruggir áfram í Bestu deildinni á næsta tímabili.“

„Við viljum alltaf vinna og maður á að venja sig á það. Við viljum koma með vinnsluna frá fyrstu mínútu og það vantaði upp á það í fyrri hálfleik í dag, við þurfum að læra af því. Það er mikil samkeppni í liðinu og menn þurfa líka að mæta þá til leiks ef þeir vilja halda sæti sínu í liðinu. Þannig virkar þetta í fótboltanum“

Jón Kristinn: Smá stressandi með svona stuttum fyrirvara

Jón Kristinn Elíasson kom inn í lið ÍBV með stuttum fyrirvara í dag og átti fínan leik.Vísir/Skjáskot

Jón Kristinn Elíasson kom óvænt inn í byrjunarlið ÍBV eftir að Guðjón Orri Sigurjónsson meiddist í upphitun. Jón Kristinn stóð sig frábærlega í markinu og greip nokkrum sinnum vel inn í sóknir Keflavíkur.

„Mjög sáttur. Þetta var risastórt fyrir okkur að sækja þessa þrjá punkta í dag. Ég er mjög sáttur með sjálfan mig líka,“ sagði Jón Kristinn þegar Vísir náði tali af honum eftir leik.

„Þetta er ekkert komið þó við séum búnir að gera mjög vel í fyrstu tveimur leikjunum. Við ætlum bara að stefna á að klára þetta, vinna alla leikina.“

Eins áður segir kom Jón Kristinn inn í byrjunarliðið með tuttugu og fimm mínútna fyrirvara og hafði því ekki mikinn tíma til að undirbúa sig.

„Maður gerir sig alltaf kláran fyrir leik þó maður sé á bekknum, maður gerir ekkert öðruvísi ef maður er að fara að spila. Auðvitað er þetta smá stressandi með svona stuttum fyrirvara.“

Þetta var annar leikur Jóns Kristins í byrjunarliði í sumar. Sá fyrri endaði þó ekkert sérlega vel fyrir hann, því hann fékk rautt spjald eftir ljótan árekstur við Loga Tómasson á Víkingsvellinum. Vonast hann ekki eftir því að fólk gleymi því núna?

„Að sjálfsögðu. Þetta atvik gerðist þarna fyrr í sumar á Víkingsvellinum, ég veit ekki hvort einhverjir muna eftir því,“ sagði Jón Kristinn brosandi.

„Auðvitað vill ég að fólk sjái mig en ekki eins og gerðist þar. Þetta var virkilega gott að geta komið svona inn. Þetta er frábær hópur sem við erum með, allir tilbúnir að berjast fyrir hvern annan. Þetta er geggjað, gæti ekki verið betra,“ sagði Jón Kristinn að endingu.


Tengdar fréttir

Hermann: Karakterinn í klefanum náði í þessi stig

„Þetta var mikilvægt, það er gott að byrja þetta svona vel með tveimur heimaleikjum og tveimur sigrum. Við erum kampakátir,“ sagði Hermann Hreiðarsson þjálfari ÍBV eftir góðan sigur á Keflavík í Bestu deild karla í dag en sigurinn færir Eyjamönnum skrefi nær sæti í deildinni að ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira